Fréttatilkynning í nafni sveitarfélagsins Skagafjarðar einungis frá meirihluta
Sveitastjórn Skagafjarðar sendi seint á föstudag frá sér fréttatilkynningu vegna ummæla meintra vinnubragða frá heilbrigðisráðherra og ráðuneyti. Var fréttatilkynningin send út í nafni sveitastjórnar í heild sinni. Skömmu síðar kom síðan tilkynning frá Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur þar sem fram kemur að ekki hafi verið haft samráð við hana um fyrrgreinda fréttatilkynningu.
Tilkynningarnar tvær eru birtar hér fyrir neðan í heild sinni?
-Vegna ummæla heilbrigðisráðherra á Alþingi um að hópur á vegum ráðuneytisins sé nú á ferð um landið og haldi fundi með framkvæmdastjórum heilbrigðisstofnana og heimamönnum til að safna upplýsingum um stöðu mála þar sem til stendur að fara í stórfelldar skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustu ásamt miklum niðurskurði á fjárveitingum, vill sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar láta eftirfarandi koma fram: Sveitarstjórn er kunnugt um að ráðuneytismenn hafi rætt við framkvæmdastjóra og starfsfólk en ekki hefur verið haft neitt samband við sveitarstjórn eða aðra heimamenn um málið. Sveitarstjórn harmar það virðingarleysi sem fram kemur í vinnubrögðum ráðherra og starfsmanna ráðuneytis gagnvart heimamönnum þegar áform um svo gríðarlegar skipulagsbreytingar er að ræða sem tillögur í fjárlögum bera með sér. Ráðherra hefur ekki enn sinnt beiðni sveitarstjórnar frá 4.október s.l. um fund með sveitarstjórn vegna málsins.
-Undirrituð sveitarstjórnarfulltrúi í Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar vil árétta að fréttatilkynning sú sem birtist fréttum í dag og er sögð frá Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar er röng. Það liggur ekki fyrir samþykkt tillaga frá Sveitarstjórn um málið. Þessi fréttatilkynning er unnin af meirihluta Framsóknarflokks og Vinstri grænna í Skagafirði. Ég harma að ákvörðun um að senda út þessa fréttatilkynningu hafi verið tekin án samráðs allra sveitarstjórnarfulltrúa og samþykktar í sveitarstjórn. Það er ekki nóg að kallað sé eftir samráði hjá ríkisvaldinu heldur þarf að huga að samráði innan sveitarstjórna og í þessu tilfelli innan Sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.