Friðbjörn Ásbjörnsson ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri FISK Seafood ehf.

Friðbjörn Ásbjörnsson. Mynd: Aðsend.
Friðbjörn Ásbjörnsson. Mynd: Aðsend.

Friðbjörn Ásbjörnsson hefur verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri FISK Seafood ehf. Auk almennra verkefna fyrir félagið mun Friðbjörn í krafti reynslu sinnar á liðnum árum sinna sérstaklega starfseminni á Snæfellsnesi. Friðbjörn starfaði áður sem framkvæmdastjóri Soffaniasar Cecilssonar hf. sem m.a. rekur og gerir út skip og rekur fiskverkun í Grundarfirði. FISK Seafood festi kaup á félaginu á síðasta ári með það fyrir augum að þróa og efla starfsemi sína á Snæfellsnesi á komandi árum.

Auk starfa sinna fyrir Soffanias Cecilsson er Friðbjörn stjórnarformaður útgerðarfélagsins Nesvers ehf. Áður var Friðbjörn m.a. framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Snæfellsbæjar og á hann að baki langan feril í viðskiptum á fiskmörkuðum, í kvótamiðlun o.fl. Friðbjörn er kvæntur Soffíu Elínu Egilsdóttur líffræðingi og eiga þau tvö börn, Ásbjörn og Særúnu, auk þess að eiga barn í vændum. Um ráðninguna segir Friðbjörn: „Í þessu nýja starfi bíða mín ýmis framsækin verkefni á sviði útgerðar og fiskvinnslu. Rekstur FISK Seafood stendur traustum fótum í þróttmiklu eignarhaldi sem á sér um 130 ára atvinnusögu í íslensku samfélagi. Félagið er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og rætur þess á Grundarfirði rekja sig allt frá kaupum þess á Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar fyrir nokkrum árum, síðan Farsæli SH-30 og nú síðast Soffaniasi Cecilssyni. Framtíðarsýn FISK Seafood um áframhaldandi uppbyggingu er metnaðarfull og verkefnin framundan krefjandi.“

FISK Seafood ehf. er grundvallað á sameinaðri starfsemi Skagstrendings hf. og Fiskiðjunnar Skagfirðings hf. Á undanförnum árum hefur félagið styrkt starfsemi sína enn frekar með kaupum eða samrunum. FISK Seafood rekur fiskvinnslustöðvar í Grundarfirði og á Sauðárkróki og skipafloti félagsins samanstendur af tveimur ferskfisktogurum, frystitogara og tveimur togbátum. Auk veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu eru mið sótt í Barentshafi og utan lögsögu á Reykjaneshrygg. Stjórnarformaður félagsins er Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri og framkvæmdastjóri er Jón Eðvald Friðriksson.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir