Frumkvöðlakonur samtíðar hittast á Króknum

Tengslanetsleiðtogar frá fimm löndum. Myndir: Ásdís Guðmundsdóttir.
Tengslanetsleiðtogar frá fimm löndum. Myndir: Ásdís Guðmundsdóttir.

Ráðstefna fyrir frumkvöðlakonur samtíðar og framtíðar verður haldin í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Sauðárkróki 18. apríl nk. en þar verður boðið upp á fyrirtækjakynningar, fyrirlestra og örvinnustofur fyrir frumkvöðlakonur. Árangur FREE Evrópuverkefnisins verður kynntur og Sirrý Arnarsdóttir, fjölmiðlakona gefur góð ráð til frumkvöðla til að koma sér og fyrirtækinu á framfæri. Ásdís Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Vinnumálastofnun, hefur leitt verkefnið sem er samstarfsverkefni sex aðila frá fimm löndum. Auk Vinnumálastofnunar tekur Byggðastofnun þátt ásamt aðilum frá Bretlandi, Búlgaríu, Króatíu og Litháen. Feykir sendi Ásdísi spurningar og forvitnaðist um verkefnið. 

Hvað geturðu sagt mér um þessa ráðstefnu?
Ráðstefnan er lokahnykkur Evrópuverkefnis sem heitir Free (Female Rural Enterprise Empowerment) en markmið þess er að styðja við bakið á frumkvöðlakonum á landsbyggðinni, og þá einkum og sér í lagi á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi. Þessi svæði voru sérstaklega valin vegna neikvæðrar íbúaþróunar og þeirra staðreyndar að konum hefur farið fækkandi á þessum svæðum.

Við erum að vinna með fimm samstarfsaðilum frá fimm löndum en Byggðastofnun er samstarfsaðili á Íslandi en auk þess eru aðilar frá Bretlandi, Litháen, Króatíu og Búlgaríu.

Í stuttu máli má segja að verkefnið snúist um þrennt:
Í fyrsta lagi að bjóða upp á fræðslu sem aðgengileg er á netinu, í námsþáttum er snúa að viðskiptatengdum þáttum.
Í öðru lagi að bjóða upp á þátttöku í jafningjafræðslu í gegnum hæfnihringi svokallaða, þar sem frumkvöðlakonur hittast á Skype, deila reynslu, setja sér markmið og vinna aðgerðaráætlun í tengslum við þessi markmið.
Í þriðja lagi efling tengslaneta á hverju svæði, en  þrjú tengslanet voru mynduð á svæðunum sem stýrt var af sjálfboðaliðum, frumkvöðlakonum á svæðinu. Þetta hefur verið einstaklega skemmtilegt ferðalag með góðu fólki, en hingað koma einmitt samstarfsaðilar frá hinum löndunum til að heimsækja fjörðinn fagra og skoða sig um, og munu þau einnig taka þátt í ráðstefnunni.

Frá námskeiði tengslanetsleiðtoga í Sheffield

 Fyrir hverja er ráðstefnan?
Hún er fyrir konur sem reka fyrirtæki eða hafa viðskiptahugmynd en vita kannski ekki hvar á að byrja og vilja kynnast þessum vetvangi. Líka fyrir þær sem vilja læra eitthvað nýtt og efla tengslanetið. Þetta er eiginlega bara fyrir flestar ef ekki allar konur!

Á ráðstefnunni verður verkefnið kynnt stuttlega en aðaláherslan er lögð á þátttöku í gegnum þrjár spennandi örvinnustofur i stefnumótun, markaðssetningu á netinu og hönnunarhugsun. Við fáum góða gesti til að stýra þessu, en það eru starfsmenn SSNV og Austurbrúar en við höfum unnið verkefnið í góðri samvinnu við þessi félög.  

Á ráðstefnunni munu þátttakendur í verkefninu segja frá sinni reynslu í verkefninu, bæði íslenskar og erlendar. Merethe Rabolle mun segja frá sinni þátttöku í hæfnihring á netinu í vetur og svo kemur Jill Turner, tengslanetsleiðtogi frá Sheffield í Bretlandi og segir okkur frá sinni þátttöku en hún skipulagði tengslanet sem hefur hist á gönguferðum.

Að lokum kemur fjölmiðlakonan Sirrý og kennir okkur hvernig á að kynna sig af öryggi. Við fáum að æfa okkur í þessu en æfingin skapar víst meistarann, en svo er allavega sagt!

Þess má geta að konum sem reka fyrirtæki er boðið að koma og kynna vöru sína og þjónustu á meðan á ráðstefnu stendur. Þetta geta verið fyrirtæki í þjónustu hverskonar, framleiðslu, nýsköpun, hönnun og svo mætti lengi upp telja. Þetta er tilvalin lokaæfing fyrir atvinnulífssýninguna sem verður í vor!

Þær sem hafa áhuga á þessu geta haft samband við Sveinbjörgu í netfangið sveinbjorg@ssnv.is eða í síma 455-2510.

Hverjar eru væntingar ykkar með árangur eða hverju ráðstefnan muni skila til þátttakenda?
Það eru okkar vonir og væntingar að með ráðstefnu sem þessari getum við eflt frumkvöðlaandann hjá konum á svæðinu og hvatt konur áfram sem nú þegar reka fyrirtæki. Svo eru það hinar sem hafa kannski einhverja viðskiptahugmynd en vita ekki alveg hvar á að byrja. Því fleiri fyrirtæki því meiri fjölbreytni og betra samfélag þar sem allir fá að njóta sín. 

Við viljum líka kynna möguleikana á heimasíðunni okkar en hún verður virk eftir að verkefni lýkur og þar verður hægt að nálgast námsefnið.

Svo er þetta tilvalinn vettvangur til að læra eitthvað nýtt og spennandi, efla tengslanetið, og svo verður gaman að sjá þá grósku sem til staðar er í þeim fyrirtækjum sem rekin eru af konum en þau eru fjölmörg þegar allt er talið saman. Svo er bara svo gaman þegar konur koma saman!

Frá vinnustaðaheimsókn í ostagerð í Sheffield

 Fer konum fjölgandi í stjórnum fyrirtækja eða sem eigendur?
Samkvæmt könnun Hagstofunnar voru konur 25,9% í stjórnum fyrirtækja árið 2016 og stóð í stað frá árinu áður. Einungis stjórnuðu sex konur 50 stærstu fyrirtækjum landsins þannig að hér má nú verulega bæta í. Nú er auðvitað búið að setja lög um kynjakvóta í fyrirtækjum og mun það væntanlega skila sér hægt og bítandi á næstu árum.

Hvað varðar eigendur fyrirtækja þá er hlutfallið svipað og í Evrópu, en þar er meðaltalið um 30%.  Það er því alveg ljóst að hér eru tækifæri fyrir konur að stíga fram.  

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
Mig langar til að nota tækifærið og hvetja konur til að mæta á ráðstefnuna, efla andann og tengjast. Það er nefnilega svo mikilvægt að virkja tengslanetið, því saman erum við sterkari en í sitthvoru lagi.   

Skráning á ráðstefnuna fer fram rafrænt og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Sjá HÉR 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir