Frumsýning í kvöld

Leikhópurinn. MYND.GG
Leikhópurinn. MYND.GG

Nemendafélag Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra frumsýnir leikrit, eftir samnefndri kvikmynd „Með allt á hreinu“ í kvöld fimmtudaginn 22. febrúar í Bifröst á Sauðárkróki. Íslensk kvikmyndaklassík frá 1982 eftir Ágúst Guðmundsson, Eggert Þorleifsson og Stuðmenn. Tónlistar- og grínmynd sem fjallar um tvær hljómsveitir, Stuðmenn og Gærurnar (réttu nafni Grýlurnar), ástir og afbrýði meðlima þeirra og spaugilegar uppákomur í ferðalagi þeirra um Ísland.

Mæðginin Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Eysteinn Ívar Guðbrandsson leikstýra verkinu og sögðu talsverða vinnu hafa farið í að gera handritið leikhúsvænna, svo blasti við þeim það lúxusvandamál að framboð leikara var helmingi meira en persónur í handritinu þannig að þau skrifuðu inn í verkið nokkur skemmtileg hlutverk. „Hópurinn er frábær, þau eru búin að vera ótrúlega dugleg að æfa og gera allt sem við biðjum þau um. Nemendafélagið er búið að vera rosalega duglegt að finna allt sem þarf að finna og gera það sem þarf að gera undir stjórn Lee Ann tengiliðs. Stemmingin í hópnum er líka frábær, við erum bara eins og ein stór fjölskylda,“ segir Silla og Eysteinn þegar hann komst að. Leikprufur fóru fram í nóvember, og æfingar fóru á fullt í janúar. Í sýningunni eru 24 lög, sem vissulega eru ekki spiluð í heild sinni.

„Það er mikill skóli að setja upp svona sýningu, því á bak við eina svona sýningu er her sem tekur að sér mismunandi hlutverk. Tæknimálin, ljós, hljóð, sviðsmynd og menn, smink, búningar og leikmunir, auglýsingar og miðasala. Allir eru mikilvægir til þess að láta svona sýningu ganga upp. Fyrrum nemendur, Óskar Aron og Ingi Sigþór hafa aðstoðað við ljósahönnun og hljóð.“

„Svona stór leiksýning er til að mynda frábær auglýsing fyrir skólann. Svakalega mikilvægt í markaðssetningu á skólanum að það sé öflugt félagslíf og leikritið er partur af því. Það eru nemendur sem sækja um bara útaf leikritinu,“ segir Lee Ann sem bættist inn í samtalið við leikstjórana. Svona uppsetning sannar líka mikilvægi þess að meta nám í listgreinum að verleikum. Það er mikill skóli að vera þátttakandi í svona verki.

Blaðamaður Feykis var svo heppinn að fá að koma á æfingu hjá hópnum og taka nokkrar myndir og spjalla við leikstjórana og leyfir sér að fullyrða að þessu ætti enginn að missa af. Miðasala er nú þegar hafin og hægt að nálgast miða í síma: 774 1742 alla daga frá kl.16-18 og í gegnum Facebook-síðu Nemó FNV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir