Fuglainflúensa greinist í villtum fuglum

Fyrir skemmstu fundust á annan tug stormmáfa og hettumáfa dauðir í fjöru við Blönduós. Sýni voru tekin og í þeim greindist skæð fuglainflúensa af gerðinni H5N5. Sama gerð skæðrar fuglainflúensu H5N5 greindist einnig í kvenkyns önd sem fannst dauð á Sauðárkróki í síðustu viku. Þetta staðfestir Tilraunastöð Hí í meinafræði á Keldum í gær. Þetta kemur fram á vef Mast. 

Um er að ræða fyrstu staðfestu smitin þetta haustið. Þessi gerð fuglainflúensuveiru, HPAI H5N5, greindist einnig hérlendis síðasta vetur. Óljóst er hvort fuglarnir á Blönduósi hafi smitast af farfuglum eða hvort smit hafi leynst í villta íslenska fuglastofninum síðan í vor. Á þessu stigi máls er lítið vitað um útbreiðslu.

Áhættumatshópur mun endurmeta smithættu fyrir alifugla og aðra fugla í haldi í ljósi þessara greininga, en ljóst er að fuglaeigendur þurfa að tryggja öflugar smitvarnir við umgengni á sínum fuglahópum og vera vel vakandi fyrir sjúkdómseinkennum í fuglum eða óeðlilegum dauða í þeim.

Matvælastofnun hvetur almenning til að tilkynna stofnuninni um veika og dauða fugla og villt spendýr sem það finnur. Það er gert með því að smella á „ábendingar og fyrirspurnir“ á forsíðu www.mast.is. Mikilvægt er að lýsa staðsetningu vel, helst með hnitum, og láta mynd fylgja með. Almenna reglan er að hræ af villtum fugli er látið liggja. Ef hræ er aftur á móti þannig staðsett að það þurfi að fjarlægja, til dæmis nálægt hýbýlum fólks þarf að gæta þess að einstaklings- og sóttvörnum og nota til verksins einnota hanska og veiruheldar grímur.

Veiðimenn eru hvattir til að sýna varkárni við veiðar og verkun villtra fugla. Ekki skal veiða fugla og nýta til matar sem haga sér óeðlilega eða eru sjáanlega veikir/slappir og gera Matvælastofnunina viðvart. Þó skal það tekið fram að heilbrigðir fuglar geta líka verið smitaðir af fuglainflúensu.

Ennfremur er bent á leiðbeiningar á upplýsingasíðu um fuglainflúensu um hvað skuli gera þegar veikir eða dauðir fuglar eða önnur villt dýr finnast.

Fleiri fréttir