Fullhreinsaðar vambir fáanlegar í slátursölu SAH Afurða
SAH afurðir á Blönduósi hafa tekið að sér að fullverka vambir og eru þær fáanlegar í slátursölu SAH Afurða á Blönduósi, að sögn Gunnars Tryggva Halldórssonar framkvæmdastjóra SAH Afurða. Vambirnar eru einnig fáanlegar í verslunum Krónunnar á Selfossi og Nóatúns í Austurveri, þannig að þeir sem ekki geta hugsað sér sláturgerð án alvöru vamba geta leitað þangað.
Fram kom í fjölmiðlum í síðustu viku að ekki væri hægt að fá vambir til sláturgerðar í verslunum eftir að Sláturfélag Suðurlands, SS, ákvað að selja ekki fullunnar vambir í verslanir í ár. Ástæðan var sögð vera sú að SS sá ekki fram á að hægt væri að halda áfram vinnslu vambanna með tilliti til kostnaðar. Þeir sem ætluðu sér að taka slátur yrðu því að notast við gervivambir, eða svokallaða prótínkeppi.
Vegna eftirspurnar var gerðu SAH Afurðir og Kaupáss, sem rekur Krónu- og Nóatúnsverslanirnar, með sér samning um að fullverka hálfhreinsaðar vambir, eftir að Matvælastofnun gaf grænt ljós á þá vöru, og koma þeim í verslanir.
„Í framhaldinu tókum við ákvörðun um að fullhreinsa einn dag og selja Kaupási í eina stóra pöntun. Þetta hefur svo hlaðið utan á sig og við erum að hreinsa í fleiri pantanir fyrir Kaupás. Þegar þetta flæði er komið af stað getum við einnig boðið fullhreinsaðar vambir á heimamarkaði einhverja daga fram að mánaðarmótum,“ sagði Gunnar í samtali við Bændablaðið.