Fulltrúar S lista saka fulltrúa L lista um órásíu í fjármálum Blönduósbæjar

Eftir að fulltrúar allra flokka höfðu stjórnað Blönduósbæ í tæp tvö ár eða allt fram að kosningum sl. vor hefur landslagið nú heldur betur breyst en á síðasta fundi bæjarstjórnar voru lögð fram svör fyrir fyrirspurnum S-lista þar sem S listafólk vill meina að í drögum að endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 kom fram upplýsingar um stórfellda fjárþörf umfram heimildir í samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2010.

Er það meining S lista fólks að umfram fjárþörfin sé bæði vegna nýrra verkefna auk yfirstandandi verkefna.

Óskað var svara við eftirtöldum atriðum:

1. Óskað er eftir rökstuðningi um niðurfellingu framkvæmda vegna lagna í Smárabraut og Sunnubraut og jarðvegsskipta í Holtabraut og endurnýjun á heimaæð samtals 9,4 milljónir.

Svar: Við gerð fjárhagsáætlunar var gert ráð fyrir umræddum kostnaði enda yrði hafin bygging íbúða samhliða framkvæmdunum. Það hefur ekki gengið eftir og því er lagt til að hætt verði við framkvæmdirnar á þessu ári.

2. Óskað er eftir útskýringum á 2 milljóna króna útgjöldum á skólalóð og 4 milljónir vegna áhaldahús sem ekki eru heimildir fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun 2010.

Svar: Hluti af framkvæmdum ársins 2009 vegna handriða féll til á árinu 2010 en að beiðni verktaka var seinkun á þeirri framkvæmd. Þá var ráðist í að tengja hitalagnir í nýju tröppunum og stéttar að þeim og fellur sá kostnaður á skólalóð. Varðandi framkvæmdir við áhaldahús var tekin ákvörðun um þær í bæjarráði þann 10. júní og veitt heimild fyrir þeim.

3. Óskað er eftir greinargerð og sundurliðun á 130 mkr. fjárþörf umfram 150 mkr. heimild í sundlaugarbyggingu.

Svar: Á fundi bæjarráðs þann 31. ágúst var samþykkt að óska eftir greingerð sundlaugahóps um sundlaugaframkvæmdina og verður sundurliðun á framkvæmdum þar.

4. Óskað er eftir sundurliðuðum samanburði á upphaflegri kostnaðaráætlun um byggingu sundlaugar, núverandi stöðu og lokaáætlun, ásamt ítarlegum upplýsingum um hvaða liðir eru vanáætlaðir og hvers vegna.

Svar: Vísað er til svarsins hér að ofan.

5. Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 4.6.2008 að hefja byggingu sundlaugar á Blönduósi á grundvelli teikninga sem unnar höfðu verið á vegum svokallaðs sundlaugarhóps.

a) Óskað er eftir afriti af kostnaðaráætluninni sem bæjarstjórn lagði til grundvallar endanlegri ákvörðun sinni um að hefja byggingu sundlaugar.

b) Þá óskast afrit af tilheyrandi umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlunina, væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á fyrirhuguðum verktíma og áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir sveitarsjóð eins og skylt er sbr. 65.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 43/1998.

Svar: Samkvæmt samþykktum Blönduósbæjar hafa bæjarfulltrúar aðgang að gögnum og upplýsingum á skrifstofutíma á bæjarskrifstofu. Bæjarfulltrúum er því bent á að snúa sér til bæjarskrifstofu með þetta erindi.

6. Fyrri umræða um þriggja ára áætlun 2009-2011 fór fram 11.12.2007, að því er virðist án þess að í henni væri að finna upplýsingar um fyrirhugaðar fjárfestingar. Áætlunin með þeim alvarlegu vanköntum var afgreidd til annarrar umræðu. Við sama tækifæri var eftirfarandi tillaga samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum:

Undirrituð leggja til að áður en þriggja ára fjárhagsáætlun verði afgreidd láti bæjarstjóri í samráði við bæjarráð vinna upp vandaða 3-5 ára framkvæmdaáætlun fyrir sveitarfélagið. Þar verði meðal annars tekið tillit til gatnagerðar, endurnýjunar lagna, viðhalds eigna, skóladagheimilis, skólamötuneytis og íþróttamannvirkja svo eitthvað sé nefnt.

Óskað er eftir afriti af þessari vönduðu 3-5 ára framkvæmdaáætlun.

 

Svar: Í umræddum áætlunum, 2007 og þriggja ára áætlun 2008-2011 var gert ráð fyrir fjárfestingum á árunum 2007-2011 að upphæð 415.200.000. Því er fullyrðing um að á henni séu vankantar röng hjá bæjarfulltrúum S-listans. Áætlanir taka breytingum frá einum tíma til annars og hafa ýmsir þættir áhrif þar á. Bæjarstjórn tók ákvörðun um að lengja framkvæmdatíma sundlaugarinnar og var um það full samstaða í bæjarstjórn. Umrædd framkvæmdaáætlun var ekki unnin.

7. Óskað er eftir rekstaráætlun fyrir sundlaug.“

Svar: Meðfylgjandi er yfirlit yfir rekstur sundlaugar á árinu 2010.

Eftir umræður lögðu fulltrúar S lista fram eftirfarandir bókun;

„Meirihluti L-lista hefur nú lagt blessun sína yfir stórfellda eyðslu umfram fjárheimildir. Fulltrúar S-lista mótmæla þessari óráðsíu með skattfé íbúa sveitarfélagsins harðlega. Engin greinargerð fylgir þeirri svokölluðu endurskoðuðu fjárhagsáætlun sem nú hefur verið samþykkt, og engin tilraun gerð til að upplýsa hvað fór svo hrapalega úrskeiðis í rekstri og fjárfestingum Blönduósbæjar sem raun ber vitni um. Framúrkeyrsla á einum framkvæmdalið um 130mkr. (87%) á 8 mánuðum er algerlega ólíðandi og ætti að kalla á sérstaka rannsókn á þeim embættisfærslum sem að baki liggja. Meirihluti L-listans lætur sér þetta í léttu rúmi liggja. Þá leggur meirihlutinn með samþykkt sinni blessun sína yfir að fé hafi verið varið til framkvæmda sem ekki voru heimildir fyrir og fellir niður nauðsynlegt viðhald á götum og vatnsveitu sem áætlaðar höfðu verið. Bent er á í þessu samhengi að óheimilt – það er að segja ólöglegt (sbr. 64.gr. sveitarstjórnarlaga) – er að stofna til kostnaðar sem ekki eru fjárheimildir fyrir. Þessi óráðsía, óvönduðu vinnubrögð og jafnvel í einhverjum tilvikum lögbrot í ráðstöfun fjármuna sveitarfélagsins lýsa virðingarleysi meirihlutans fyrir íbúum þess.Meirihluti L-listans hefur nú sýnt svo ekki verður um villst að krafa S-listans um bætta stjórnsýslu og fjármálastjórn er fyllilega réttmæt.

Undir þetta rita Þórdís Erla Björnsdóttir, Hörður Ríkharðsson og Oddný M. Gunnarsdóttir.

Hér bað forseti um fundarhlé.

 Að fundarhléi loknu lögðu fulltrúar L-listans fram eftirfarandi bókun:

„Blönduósbær lauk á árinu við byggingu sundlaugar sem opnuð var þann 16. júní s.l. Núverandi bæjarstjórn tók við þann 15. júní en í fyrri bæjarstjórn var full samstaða og einhugur um byggingu sundlaugar og var verkefnið til umfjöllunar á nánast öllum fundum bæjarstjórnar s.l. 2 ár. S-listinn kýs að tjá sig eins og hann hafi enga ábyrgð á byggingu sundlaugar. Þeirri staðhæfingu að L-listinn láti sér í léttu rúmi liggja fjármál bæjarsjóðs er vísað til föðurhúsanna. Það lýsir málefnafátækt að gagnrýna frekar en að takast á við viðfangsefnið á ábyrgan hátt.

Undir þetta rita Ágúst Þór Bragason, Hilmar Þór Hilmarsson, Valgerður Gísladóttir og Kári Kárason.

Að því loknu var endurskoðuð fjárhagsáætlun borin undir atkvæði og samþykkt með fjórum atkvæðum á móti þremur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir