Fundað í velferðarnefnd Alþingis um málefni Háholts
Síðastliðinn fimmtudag var haldinn fundur í velferðarnefnd Alþingis að ósk Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns VG, þar sem málefni Háholts í Skagafirði voru tekin til umræðu. Á fundinn mættu fulltrúar Barnaverndarstofu sem fóru yfir hlutverk stofnunarinnar og þau úrræði sem standi til boða, sem og Þorsteinn Víglundsson, velferðarráðherra.
Eins og fram hefur komið á Feyki.is boðaði fyrrum starfsfólk Háholts til fundar nýverið þar sem staða heimilisins var rædd. Þar kom fram að Sveitarfélagið Skagafjörður er fúst til áframhaldandi samstarfs við barnaverndaryfirvöld um rekstur meðferðarheimilis enda hafi komið fram að þörf sé á slíkri starfsemi þvert á fullyrðingar Braga Guðbrandssonar forstjóra Barnaverndarstofu.
Í samtali við mbl.is segir Steinunn Þóra að misvísandi upplýsingar fáist um skort á meðferðarrúræðum fyrir ungt fólk. Sveitarfélögin tali um skort á meðan Barnaverndarstofa sé á annarri skoðun. Steinunn segir fundinn hafi verið mjög gagnlegan en að umhugsunarvert sé að svo virðist sem erfitt sé að fá fagmenntað fólk til starfa á landsbyggðinni - í víðu samhengi. Einnig telur hún nauðsynlegt að greina betur hver þörfin fyrir meðferðarrúæði fyrir ungt fólk sé og hefur hún óskað eftir því að kallað verði eftir sjónarmiðum fulltrúa stærstu sveitarfélaganna.
„Rannsóknarskyldum nefndarinnar er ekki lokið. Spurningum er enn ósvarað um þessi mál. Í mínum huga snýst þetta um mikilvægi þess að ungt fólk, sem komið er út af sporinu, komist í viðunandi meðferðir. Þetta er hópur sem við getum ekkert látið bíða,“ segir Steinunn Þóra ennfremur í samtalinu við mbl.is.