Fundað með samgönguráðherra um vegamál á Vatnsnesi

Til fundarins mættu rúmlega 80 manns. Mynd:hunathing.is
Til fundarins mættu rúmlega 80 manns. Mynd:hunathing.is

Rúmlega 80 manns sóttu íbúafund um vegamál  á Vatnsnesi sem haldinn var á Hótel Hvítserk sl. miðvikudagskvöld. Til fundarins mætti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, og fór yfir hugsanlega möguleika í stöðunni ásamt heimamönnum.

Framsöguerindi  á fundinum fluttu þau Ingveldur Ása Konráðsdóttir, formaður byggðarráðs Húnaþings vestra, Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir, fulltrúi íbúa, og Sigurður Ingi Jóhannesson, samgönguráðherra.  Fundarstjóri var Júlíus Guðni Antonsson.

Fram kemur á heimasíðu Húnaþings vestra að eftir að hafa hlýtt á framsögu fulltrúa sveitarstjórnar og heimamanna hafi ráðherra farið yfir samgönguáætlun og bent á að þar sé að finna liði sem ekki eru sundurliðaðir og hugsanlega væri hægt að nota til framkvæmda á Vatnsnesvegi, svokallaðan tengivegapott.

Þótt skilningur og jákvæð viðbrögð samgönguráðherra hafi vissulega vakið nokkrar vonir hjá heimamönnum um einhverjar úrbætur sló fulltrúi Vegagerðarinnar, sem tók til máls í fundarlok, á þær vonir. Hann „sagði að ekkert yrði af því sem ráðherra talaði um, vegagerðin væri búin að úthluta tengivegapotti fyrir Norðurland næstu þrjú árin og að kannski væri hægt að nota einhverja aura hjá okkur eftir það!  Einnig sagði hann að ekki sé hægt að fara í framkvæmdir nema ýtrustu öryggisstöðlum sé fullnægt með fullri 7 metra vegbreidd og það sé of kostnaðarsamt. 

Er þá algjört öryggisleysi í 20 – 30 ár betra en að lagfæra veginn í samræmi við það sem þekkist í dreifbýli erlendis þ.e. 1 ½ vegbreidd og minni vegflái?“ segir á heimasíðu Húnaþings vestra og jafnframt ályktað að valkostirnir í stöðunni séu annað hvort reiðgata eða hraðbraut!

Erindi Guðrúnar Óskar Steinbjörnsdóttur, er flutti erindi sem fulltrúi íbúa á Vatnsnesi, má nálgast hér:

https://www.facebook.com/gudrunsteinbj/posts/10155442346181525

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir