Fundur ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi vestra

Vordagur ferðaþjónustunnar á Norðurlandi vestra var haldinn í Eyvindarstofu á Blönduósi í síðustu viku. Það voru samstarfsvettvangur ferðamálafélaga á svæðinu og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, sem stóðu að viðburðinum.
Í upphafi fundar talaði Sigríður Dögg Guðmundsdóttir. Fór hún yfir helstu áherslur í markaðsstarfi Íslandsstofu síðustu misserin með áherslu á það hvernig landsbyggðin tengist inn í þær. Einnig fjallaði hún um verkefnið „Team Iceland“ sem er landkynningarherferð í tengslum við HM í Rússlandi í sumar.
Að því loknu héldu þeir ferðaþjónustuaðilar sem til fundarins mættu stuttar kynningar á sinni starfsemi og kenndi þar margra grasa. Greinilegt er að framboð á afþreyingu fyrir ferðamenn á þessu svæði er mjög fjölbreytt og vandað og alltaf bætast nýir þættir við. Að kynningunum loknum gafst tækifæri fyrir spjall og voru þar meðal annars viðraðar ýmsar hugmyndir um það hvernig hægt væri að laða ferðamenn frekar á svæðið.
Þetta er í annað sinn sem ferðaþjónustuaðilar á svæðinu hittast að vori til að kynna starfsemi sína hver fyrir öðrum og hefur þótt takast með ágætum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.