Fyrirhuguð hækkun leikskólagjalda í Skagafirði
Á fundi byggðarráðs Skagafjarðar síðasta fimmtudag var fjallað um gjaldskrá fyrir leikskóladvöl. Lögð var fram tillaga um að gjald fyrir dvöl á leikskólum í Skagafirði hækkaði um 8% frá og með 1. janúar 2015. Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu.
Fulltrúi VG og áháðra, Hildur Þóra Magnúsdóttir, greiddi atkvæði á móti og óskaði bókað:
„Sveitarfélagið Skagafjörður markaði sér þá stefnu á síðasta kjörtímabili undir forystu VG og óháðra í samstarfi við framsóknarflokkinn, að gjöld fyrir þjónustu sveitarfélagsins við fjölskyldu og barnafólk væru með þeim lægstu á landinu og að fjölskyldu og barnafólk fengi sérstaklega notið góðs rekstrarárangurs sveitarfélagsins frá árinu 2012. Leikskólagjöld eru nú þau lægstu á landinu hér og skipta miklu máli fyrir jákvæða búsetuímynd sveitarfélagsins. Með 8% hækkun leikskólagjalda nú er verið að hverfa frá þeirri stefnu. Vg og óháðir geta ekki samþykkt slíka hækkun og viðbótarálögur sem litlu skila í viðbótartekjum til sveitarfélagsins."
Stefán Vagn Stefánsson, fulltrúi framsóknarmanna, óskaði þá bókað:
„Sú hækkun sem hér um ræðir er til þess að halda í verðlags- og launahækkanir. Þrátt fyrir umræddar hækkanir verða leikskólagjöld með þeim lægstu á landinu. Ekki er verið að hverfa frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið varðandi lág leikskólagjöld.“