Fyrsti heimaleikur Tindastóls á sunnudaginn
Meistaraflokkur Tindastóls í körfuknattleik spilar sinn fyrsta heimaleik í Síkinu á sunnudaginn kemur, þegar Grindvíkingar koma í heimsókn. Grindvíkingar eru ósigraðir eftir fyrstu tvær umferðirnar.
Grindvíkingar sigruðu nágranna sína í Njarðvík í fyrstu umferð 84-68 og unnu svo KFÍ á heimavelli í annarri umferð 96-87. Tindastóll hefur tapað báðum sínum leikjum í upphafi móts, gegn nýliðum deildarinnar KFÍ og Haukum, en báðir leikirnir fóru fram á útivelli.
Í liði Grindvíkinga eru margir skemmtilegir leikmenn. Pál Axel Vilbergsson kannast flestir íslenskur körfuboltaáhugamenn við, en hann hefur verið einn besti leikmaður landsins um árabil. Þá má nefna Ómar Sævarsson, fyrrum ÍR-ing, sem leikur nú sitt tímabil með þeim gulklæddu. Páll Axel hefur átt við meiðsli í hásin að stríða og lék hann ekki í sigri Grindvíkinga gegn Haukum um daginn. Í leiknum í Njarðvík skoraði kappinn einungis 5 stig sem þykir ekki mikið á þeim bænum. Ómar er að skora 12.5 stig að meðaltali og tekur 6.5 fráköst.
Erlendir leikmenn eru tveir hjá Grindavík, bandaríkjamaðurinn Adre Smith og Ryan Pettinella sem hefur ítalskt ríkisfang. Smith er þeirra helsti stigaskorari, leikur í stöðu leikstjórnanda og hefur skorað 26.5 stig að meðaltali í leik og sent 8 stoðsendingar. Pettinella er með 12.5 stig að meðaltali og hefur tekið 13 fráköst, en hann er mikill dreki í teignum.
Ólafur Ólafsson er athyglisverður ungur leikmaður, en hann hefur skorað 9.5 stig að meðaltali og tekið 4.5 fráköst. ´
Okkar menn eru ekki ennþá komnir í sitt besta form og þurfa sannarlega á góðum leik að halda til að leggja Grindvíkinga að velli. Fráköstin fóru með liðið í síðasta leik gegn Haukum, en einhver góður maður sagði að fráköstin væru 10% tækni og 90% vilji og því ættu menn að geta tekið sig verulega á þar með aukinni baráttu.
Leikurinn hefst kl. 19.15 á sunnudaginn í Síkinu og er ástæða til að hvetja stuðningsmenn til að mæta og styðja við bakið á okkar mönnum og hjálpa til við að koma liðinu á rétta braut eftir brösuglega byrjun.