Fyrsti sigur Kormáks/Hvatar í höfn

Lið Kormáks/Hvatar. MYND AF FB
Lið Kormáks/Hvatar. MYND AF FB

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar vann fyrsta sigur sinn í 4. deildinni þetta sumarið þegar þeir sóttu þrjú stig á Stykkishólmsvöll í gærkvöldi. Lokatölur voru 0-7 en gestirnir voru þremur mörkum yfir í hléi.

Heimamenn urðu fyrir skakkafalli strax á 4. mínútu þegar markvörður Snæfells fékk að líta rauða spjaldið hjá dómaranum. Oliver Torres gerði fyrsta mark K/H á 14. mínútu og sjö mínútum síðar bætti Sigurður Aadnegard við marki. Oliver gerði þriðja markið rétt fyrir hlé. Hilmar Kára gerði fjórða markið á 52. mínútu og síðan bættu Hlynur Rafnsson, Emil Óli og Viktor Ingi við mörkum á síðasta stundarfjórðungi leiksins.

Eftir að hafa byrjað mótið á þremur útileikjum þá eiga liðsmenn Kormáks/Hvatar loks heimaleik nk. sunnudag en þá kemur lið Álafoss úr Mosfellsbæ í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 16:00. Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir