Gæruhljómsveitir - Nykur
Tónlistarhátíðin Gæran hófst í gærkvöldi með glæsilegu sólóistakvöldi á skemmtistaðnum Mælifelli. Í kvöld og á morgun verður hátíðin haldin í húsnæði Loðskins/Atlantic Leather á Sauðárkróki.
Nykur verður á meðal þeirra hljómsveita sem stíga á stokk á Gærunni í ár.
Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni ykkar? Rokk! …og vonandi eftirminnilegt. En ef maður missir sig í þröngar skilgreiningar þá myndi tónlistin okkar kannski flokkast sem sígild rokktónlist, frumsamin, sungin á íslensku, eitilhörð en melólísk.
Hafið þið lent í skemmtilegum uppákomum á tónleikum hjá ykkur? Aldrei, þetta er bara búið að vera óvissa og kvíði (afsakið aulabrandarann). En ekkert sérstakt kemur í huga svona í fljótheitum. Fyrir utan það að fólk hefur hrifist af bandinu og klappað á milli laga, sem er alltaf skemmtileg uppákoma, þá höfum við gert frábæra tónleika í gegnum tíðina og vonandi verður framhald hér á.
Hvað er á döfinni hjá ykkur? Það eru skemmtilegir tímar framundan hjá Nykri. Tónleikarnir á Gærunni verða okkar fyrstu tónleikar í langan tíma og með nýju hrynpari, þeim Kristjáni B og Jóni Svan. Þannig að tíminn framundan fer í að spila sem mest, þétta bandið og síðan er planið að byrja upptökur á nýrri plötu í haust. Lögin eru tilbúin að mestu, Gummi og Dabbi sömdu helling í vor, og vonandi kemur önnur plata sveitarinna út um páskana, ef allt gengur upp.
Hvernig leggst það í ykkur að spila á Gærunni 2014? Afskaplega vel. Við höfum ekkert heyrt nema góða hluti um hátíðina í gegnum tíðina, fjölbreytt dagskrá í boði og góður fílingur í Skagfirðingum að venju. Við ætlum að minnsta kosti að gefa hann góðann og rokka langt yfir öll velsæmismörk.