Gæruhljómsveitir - The Bangoura Band
Tónlistarhátíðin Gæran hefst í kvöld með sólóistakvöldi á skemmtistaðnum Mælifelli og er miðasala í fullum gangi á miði.is. Gæran verður haldin í húsnæði Loðskins/Atlantic Leather á Sauðárkróki föstudaginn 15. og laugardaginn 16. ágúst. Feykir hafði samband við hljómsveitirnar og tónlistarmennina sem koma fram á Gærunni í ár og mun vera með stuttar kynningar á þeim fram að hátíðinni.
The Bangoura Band verður á meðal þeirra hljómsveita sem stíga á stokk á Gærunni í ár.
Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni ykkar? Tónlistin okkar semanstendur af Afro beat, funk og Mandingue tónlist sem á rætur sínar að rekja til Guineu í Vestur Afríku.
Hafið þið lent í skemmtilegum uppákomum á tónleikum hjá ykkur? Það er alltaf einhverjar uppákomur en annars er alltaf góð stemming og mjög mikið dansað á böllum hjá okkur.
Hvað er á döfinni hjá ykkur? Næstu tónleikar hjá okkur eru á afrísku festivali í Tampere í Finnlandi helgina 24.-27. júlí og svo erum við að spila á Ein með öllu á Akureyri og á Síldarævintýri á Siglufirði um verslunarmannahelgina. Einnig erum við á fullu að leggja lokahönd á disk/plötuna okkar sem mun vonandi verða tilbúin fyrir Gæruna.
Hvernig leggst það í ykkur að spila á Gærunni 2014? Bara mjög vel, hlökkum til að koma og spila á Gærunni 2014 og sjá hvernig Sauðkrækingar og fleiri dansa við tónlistina okkar.