Gætum að sjálfstæðinu – Leiðari Feykis

Þjóðhátíðardagur Íslendinga er haldinn hátíðlegur 17. júní ár hvert á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar, helsta leiðtoga landsins í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Honum til heiðurs var dagurinn valinn stofndagur lýðveldisins árið 1944. Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið í stöðugri valdabaráttu, annað hvort við erlend ríki eða innbyrðis og landið bókstaflega fylltist af sjálfstæðum höfðingjum og þeirra fólki á landnámsöld vegna valdabrölts Haraldar hárfagra í Noregi.

Fyrstu aldir Íslandsbyggðar náðu hinir nýju landnemar og afkomendur þeirra að búa til stjórnsýslu sem virkaði á þeim tíma og skrifar Ari fróði að þá er Ísland hafi víða verið byggt hafi „… maður austrænn fyrst lög út hingað úr Norvegi, sá er Úlfljótur hét …“

Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930 og þar komu höfðingjar landsins saman í júní ár hvert til að setja lög og kveða upp dóma. Eftir borgarastyrjöld Sturlungaaldarinnar gengu Íslendingar Noregskonungi á hönd með gerð Gamla sáttmála 1262-4 og við það breyttust störf Alþingis enda framkvæmdavaldið horfið til erlends ríkis og enn annars er Noregur og Ísland urðu hluti af Danaveldi 1380.

Á WikiPedia segir þó að Íslendingar hafi að mestu leyti ráðið sér sjálfir næstu aldirnar en áhrif Dana á innanlandsmál fari að aukast verulega með siðaskiptunum um miðja 16. öld og ná svo hámarki með upptöku einveldis 1662. Við tóku hörmungartímar í íslenskri sögu, veðurfar var hart, grasspretta oft léleg, hafís lagðist að landi og illa fiskaðist og eldgos og önnur óáran gekk yfir. „Ekki var þó mikið um ófrið í landinu, að frátöldum Spánverjavígunum 1615 og svo Tyrkjaráninu 1627.“

Alþingi var orðin valdalaus stofnun og loks lagt niður árið 1800 og Landsyfirréttur stofnaður í staðinn. Það var svo í kjölfar þjóðernisvakningar og stjórnmálahræringa suður í Evrópu sem Íslendingar hófu að berjast fyrir endurreisn Alþingis og láta sig dreyma um sjálfstæði þjóðarinnar og árið 1845 var Alþingi endurreist í Reykjavík, þó aðeins sem ráðgjafarþing.

Sumarið 1851 var haldinn Þjóðfundur í Reykjavík þar sem Trampe greifi reyndi að slíta fundi í nafni konungs en Jón mótmælti og þingmenn tóku undir með orðunum: „Vér mótmælum allir.“ Eftir þann fund varð Jón óumdeildur leiðtogi í baráttu Íslendinga fyrir auknum réttindum og má nefna að einokunin sem Íslendingar höfðu þurft að sæta í langan tíma var aflögð og verslun við Ísland varð öllum þjóðum frjáls 1855. Árið 1874 fengu Íslendingar svo sína fyrstu stjórnarskrá og fékk Alþingi löggjafarvald með konungi og þar með takmarkaða sjálfsstjórn.

Mikil tímamót urðu 1. desember árið 1918 þegar Ísland fékk fullveldi og varð Konungsríkið Ísland með eigin þjóðfána óskorað löggjafarvald en Danir fóru áfram með utanríkismál og landhelgisgæslu. Lýðveldi var svo stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944 og féll þá samband Íslands við Danmörku alfarið úr gildi.

Síðan eru liðin 77 ár með íslenskum lögum og stjórnarskrá, ár framfara, uppbyggingar og velmegunar. Sjálfstæði er ekki sjálfgefið, eins og rakið er hér að ofan, og ætíð þarf að hlúa að því. Ekki sofna á verðinum og lát eigi dægurþras og pólitískan blekkingarleik hafa áhrif þegar kallað er: „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ Í henni, er grein, sú 111., sem heimilar framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að.

Góðar stundir
Páll Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir