Gáfu sjónvarpstæki á stofur og sal

Kiwanisklúbburinn Drangey í Skagafirði verður 40 ára nú í maí og af því tilefni gaf klúbburinn glæsileg sjónvörp til Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki, fimm tæki á stofur á sjúkradeild og stórt tæki á Deild 2 . Öll tækin leysa af hólmi minni tæki sem fyrir voru og í því felst munurinn að áhorfendur njóta betur.
Herdís Clausen, yfirhjúkrunarfræðingur, tók við gjöfinni fyrir helgi og þakkaði velvild Kiwanisklúbbsins sem hefur verið ötull að fjármagna tæki og hluti fyrir sjúkrahúsið á Sauðárkróki. Hún var að vonum ánægð með framtakið og upplýsti að mikill munur væri fyrir heimilisfólk að hafa fengið stærri tæki og þar með aukið þeirra lífsgæði.
Gunnsteinn Björnsson, forseti Kiwanisklúbbsins, segir stærstu gjöfina sem klúbburinn hafi afhent sjúkrahúsinu sé speglunartækið sem gefið var fyrir um fjórum árum síðan. „Það var verkefni upp á 19 milljónir. Jafnframt höfum við greitt kostnað við speglun á 55 ára Skagfirðingum síðan en við erum á fjórða ári núna af fimm ára samningi. Annað sem má nefna í sögu okkar er að báðir bílarnir sem sambýlin hafa til umráða eru gefnir af okkur,“ segir Gunnsteinn.
Þess má geta að klúbburinn var einn af þeim fyrstu sem byrjuðum á að gefa reiðhjólahjálma sem nú er orðið að landsverkefni Kiwanis.
„Kiwanishreyfingin hefur kjörorðið „Hjálpum börnum heims“ og er það örugglega á hverju ári, og oftast nokkrum sinnum, að við styðjum við foreldra sem eru með veik börn án þess að geta þess sérstaklega. Klúbburinn hefur notið mikillar velvildar almennings og fyrirtækja í Skagafirði sem við kunnum miklar þakkir fyrir,“ segir Gunnsteinn.
Hann segir að meðlimir Kiwanisklúbbsins Drangeyjar muni verða á atvinnulífssýningunni sem haldin verður í byrjun maí á Sauðárkróki, og kynna starfið og sögu klúbbsins.
„En fyrir okkur skiptir félagskapurinn mjög miklu máli. Þetta er skemmtilegt starf og hressilegur félagskapur sem við vildum gjarnan stækka og bjóðum öllum, sem hugnast að taka þátt í skemmtilegu starfi og félagskap, að hafa samband við klúbbinn á drangey@kiwanis.is,“ segir Gunnstein að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.