Gaman að skilja eitthvað eftir fyrir framtíð barnabarnanna

Bútasaumsteppi sem Jóhanna saumaði árið 2012 og gaf í sjötugsafmælisgjöf. Myndir úr einkasafni.
Bútasaumsteppi sem Jóhanna saumaði árið 2012 og gaf í sjötugsafmælisgjöf. Myndir úr einkasafni.

Jóhanna S. Björnsdóttir sagði lesendum frá handavinnu sinni í þættinum Hvað ertu með á pjónunum? í 43.  tbl. Feykis 2017. 

Jóhanna S. Björnsdóttir á Sauðárkróki er fjölhæf handavinnukona þó ekki sé ýkja langt síðan hún fór að fást við handavinnu, aðeins 15 ár, í kjölfar slyss sem hún varð fyrir þannig að segja má að handavinnuáhuginn hafi kviknað fyrir slysni. Síðan þá hefur hún lagt stund á margs konar hannyrðir og meðal annars á hún nú fjóra þjóðbúninga. Jóhanna hefur sótt ýmis námskeið og skráði sig eitt sinn, fyrir misskilning, á bútasaumsnámskeið í New Hampshire, sem ætlað var fólki sem hafði bútasaum að atvinnu. 

Jóhanna, í upphlut sem hún saumaði, með Rúrik, dótturson sinn, sem var skírður á sextugsafmæli hennar. Jóhanna prjónaði kjólinn á u.þ.b. tveimur mánuðum árið 2009 og hafa barnabörnin verið skírð í honum.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? 
Það eru eiginlega ekki nema 15 ár frá því að ég fór að fást við handavinnu. Sem unglingi fannst mér þetta ekkert sérlega gaman og mamma gafst stundum upp á að reyna að hjálpa mér við það sem ég átti að gera heima fyrir skólann, sagði mér bara að fara og vaska upp, hún skildi klára verkið. Ég var nefnilega með þumalputta á öllum.

Fyrir 15 árum lenti ég í slysi og mátti ekkert gera í langan tíma. Ég var um tíma á Kristnesi og þar var kona sem ég kynntist sem var alltaf að gera eitthvað í höndunum. Þá ákvað ég að kaupa mér puntuhandklæði til að sauma út í og þar með fór boltinn að rúlla. Ég komst að því að mér fannst þetta bara rosa gaman og var bara nokkuð sæmileg í þessu, svo er ég líka svo „manísk“, að allt sem ég tek mér fyrir hendur, er gert alla leið.

Upp úr þessu fór ég af stað í bútasaum, hafði séð sýningu nokkurra kvenna í Minjahúsinu á Króknum, og varð alveg forfallinn bútari. Svo skellti ég mér meira að segja á námskeið í New Hampshire í Bandaríkjunum sem kom nú í ljós, þegar ég mætti á svæðið, að var fyrir fólk sem VANN við að „quilta“ fyrir aðra, sem sé „prófessional“. Ég setti bara upp sparibrosið og þóttist hafa vit á öllu og lærði alveg heilmargt í þessari ferð.

Kirkja sem Jóhanna keyppti tilbúna en setti lit á með svokallaðri þurrburstun. Jólasveinarnir eru eitt af fjórum settum sem hún saumaði árið 2007.

Ég hef alltaf haft áhuga á íslenskum búningum, ég fékk silfur á búning frá ömmu minni í móðurætt og veturinn 2007-2008 sótti ég námskeið hjá Helgu Sigurbjörnsdóttur í að sauma mér 20. aldar upphlut. Þá fékk ég þá flugu í hausinn að koma mér upp faldbúningi, hafði samband við Hildi í Annríki í Hafnarfirði og skráði mig á námskeið í febrúar 2013. Þetta er heilmikið verk, tekur alla jafna ekki minna en þrjú ár að klára allt. Ég byrjaði á að sauma út í pilsið, það voru 3 metrar af munstri. Við þetta dundaði ég í þrjú ár meðfram námskeiðum í baldýringu og að sauma 19. aldar upphlut sem er partur af faldbúning, flauelsskera í kraga og borða á treyju.  Svona til gamans þá hlustaði ég á Dalalíf meðan ég saumaði út, það tók 90 tíma í lestri svo ég veit að ég var meira en 90 klukkutíma að sauma út í pilsið. Ég útskrifaðist síðan 29. maí 2016 með mikilli viðhöfn í Viðey en þar voru saman komnir nokkrir tugir kvenna í alls kyns búningum. Hildur og Ási í Annríki eiga heiður skilið fyrir hvað þau hafa gert fyrir varðveislu búninga og sögu þeirra og að breiða út áhuga á þjóðbúningum Íslendinga.  Þau reka alveg einstakt fyrirtæki, sem gott er að læra hjá. 

Jóhanna í faldbúningnum ásamt Finni, manni sínum. Myndin er tekin 17. júní 2016.

Ég kom mér svo upp peysufötum vorið 2016 svo nú á ég fjóra búninga alls. Næst er að sauma 19. aldar upphlut á dótturdóttur mína, -svo sé ég til.

Það besta við þjóðbúningasaum er að þetta er mestallt gert í höndunum, saumavél kemur ekki svo mikið við sögu, og þó maður sé útstunginn á puttunum er það bara ánægja og stolt þegar maður horfir á verkin sín. 

Hverju ertu að vinna að núna   
Eins og ég sagði áður ætla ég að sauma upphlut á unglinginn minn, hana langar að útskrifast í íslenskum búningi en þar sem útskriftin er ekki á dagskrá fyrr en eftir 2-3 ár hef ég nógan tíma. Ég er að hekla dúllur í teppi, og svo hef ég með mikinn áhuga á rúnum og spáspeki, og er að vinna við að útbúa rúnasteina, litlar steinvölur sem ég lakka og mála rúnir á. Ég held nú samt spáspekinni fyrir mig. 

Ég er líka að búa mér til minningabók um búningana mína, hvenær og hvar ég saumaði þá, hvar ég fékk silfrið og fylgihlutina, svona til að barnabörnin viti eitthvað um arfinn sinn. 

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ert þú ánægðust með?  
Ég á voðalega erfitt að gera upp á milli, mér finnst þetta allt svo skemmtilegt og er svo stolt þegar mér tekst að klára það sem ég byrja á. Mér þykir vænt um að geta skilið eitthvað eftir fyrir framtíð barnabarnanna minna, minningar um ömmu sína og hvernig var unnið áður fyrr. Nú hljóma ég eins og ég sé hundgömul og á grafarbakkanum en tíminn

Leðurtaska, gerð hjá Gestastofu sútarans.

líður ótrúlega hratt svo það er eins gott að nýta hann vel. Eitt stendur þó kannski ofar öðru en það er skírnarkjóll sem ég prjónaði og barnabörnin mín eru skírð í.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir