Gamla hlaðan í Sæmundarhlíðinni fær nýtt líf

Einhvernveginn svona mun gamla hlaðan líta út. MYND: MAGNÚS FREYR
Einhvernveginn svona mun gamla hlaðan líta út. MYND: MAGNÚS FREYR

Hafist hefur verið handa við framkvæmdir í Sæmundarhlíðinni á Sauðárkróki en þar hyggjast Gagn ehf. og Sauðárkróksbakarí blása lífi í gömlu hlöðuna, sem stendur við minni Sauðárgils og Litla-skógar, og gera að veitinga- og samverustað í miðju Króksins. Að sögn Magnúsar Freys Gíslasonar, arkitekts og hönnuðar, gengur verkefnið út á „...að glæða þennan stað lífi og toga fólk út að sýna sig og sjá aðra og njóta matar og drykkja með félögum, öðrum íbúum samfélagsins og þeirra gesta sem við fáum í fjörðinn.

Magnús segir að staðurinn sé fyrst og fremst hugsaður fyrir heimafólk og miðast reksturinn við að þjónusta nærsamfélagið. „Þarna er hægt að tilla sér í hressingu eftir göngutúr um þær mörgu gönguleiðir sem tengjast staðnum í gegnum t.d. Sauðárgil. Námsmenn úr FNV, hinum megin við götuna geta sest þarna inn og unnið í ritgerðum yfir góðum kaffibolla. Þarna getum við hist fyrir og eftir körfuboltaleiki og lengi mætti áfram telja.

Það eru Gagn ehf., í eigu Magnúsar og Kolbrúnar Daggar Sigurðardóttir konu hans, og Sauðárkróksbakarí, sem Róbert Óttarsson og Selma Barðdal eiga, sem standa að framkvæmdum.

Hvað á að byggja og hvernig hyggist þið nota gömlu hlöðuna sjálfa? „Við erum að nýta núverandi byggingu og í henni verður aðalrými veitingastaðarins, þar er afgreiðsla og sæti við glugga sem opnar á útsýni upp Sauðárgil. Svo eru reistar viðbyggingar, sitthvoru megin, annarsvegar bakendi sem inniheldur vörumóttöku, eldhús og starfsmannaaðstöðu. Svo hinsvegar skála með sætum og snyrtingu. Á suðvestur horni er svo stór pallur.“

Hvað hefur verið mest ögrandi við þetta verkefni? Áskoranir hafa verið í ferlinu en nú er verkið hafið og skotgengur undir handleiðslu öflugra verktaka enda eigum við Skagfirðingar einstaklega fært fólk á öllum sviðum sem snúa að svona framkvæmd. Þannig að við horfum bjartsýn fram á veginn og hlökkum mikið til að geta boðið alla velkomna sumarið 2021,“ segir Magnús Freyr að lokum.

Ítarlegra viðtal við Magnús varðandi verkefnið má finna í nýútkomnum Feyki. Þá er hægt að fylgjast með framkvæmdum á nýstofnaðri Facebook-síðu verkefnisins. Smellið hér >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir