Gamlar myndir úr mannlífi austan Vatna

Í Jónsmessuhátíðinni á Hofsósi, sem að þessu sinni verður dagana 20.-22. Júní, verða sýndar áhugaverðar gamlar hreyfimyndir úr mannlífi austan Vatna, teknar af Dodda í Stóragerði á árunum milli 1960 og 1970.

Að sögn Kristjáns Jónssonar, sem er í undirbúningsnefnd hátíðarinnar, gefst þarna skemmtilegt tækifæri fyrir þá sem voru ungir á þessum tíma að sjá sjálfa sig á hvíta tjaldinu. Það er Finnur Sigurbjörnsson sem stendur fyrir sýningunni og mun hún rúlla á tjaldi í félagsheimilinu Höfðaborg á milli kl. 11 og 14 á laugardeginum. Kristján segir að þarna sé um að ræða skemmtileg myndbrot úr, t.d. frá Hlíðarhúsinu, byggingu hafnargarðs á Hofsósi og fleira áhugavert úr mannlífinu austan Vatna á þessum árum.

Fleiri fréttir