Gasmengun í Skagafirði og við Húnaflóa
Gasmengun frá eldgosinu í Holuhrauni er á norðanverðu hálendinu vestur að Langjökli, norður til Skagafjarðar og inn á Húnaflóa í dag. Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands má búast við áframhaldandi gasmengun í landshlutanum á morgun, allt frá Ströndum til Eyjafjarðar, á norðanverðu hálendinu og víðar.
Spákort gasdreifingar fyrir morgundaginn, föstudag. Kort/Veðurstofa Íslands
Frá eldgosinu í Holuhrauni losna gosefni út í andrúmsloftið, sem geta haft áhrif á heilsu manna. Algengustu gosefnin eru vatn(H2O), koldíoxíð (CO2) og brennsteinsdíoxíð (SO2). Auk þess losna önnur efni eins og brennisteinsvetni (H2S), vetni (H2), kolmónoxíð (CO), vetnisklóríð (HCl), vetnisflúoríð (HF), og helíum (He), en í minna magni.
Á vefsíðu sóttvarnarlæknis segir að helstu áhrif gastegunda frá gosinu á heilsu manna eru af völdum SO2. Helstu einkennin eru ertingur í augum, hálsi og öndunarfærum og við háan styrk getur fólk fundið fyrir öndunarörðugleikum. Fólk með undirliggjandi astma, berkjubólgu, lungnaþembu og hjartasjúkdóma er viðkvæmara fyrir SO2, heldur en heilbrigðir einstaklingar og fær einkenni við lægri styrk en aðrir. Þeim er því ráðlagt að hafa öndunarfæralyf tiltæk.
Einnig segir að þótt ekki séu til áreiðanleg gögn um að börn séu sérstaklega viðkvæm fyrir SO2 er allur varinn bestur og skynsamlegt að ráðleggingar fyrir fólk með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma gildi líka fyrir börnin.
Almenningur er því hvattur til að bregðast við ef gosmökkur kemur óvænt, halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu, ef þeir verða varir við óþægindi af völdum gosmökksins.
Nánari upplýsingar má finna á vef Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnunar og Sóttvarnarlæknis.