Gasmengun vel undir hættumörkum

Gasmengun gætir víða um land og má sjá greinilega blámóðu yfir Norðurlandi vestra í dag. Að sögn Vernharðs Guðnasonar, formanns Almannavarnanefndar Skagafjarðar, gefur mælir sem sýnir styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) í andrúmsloftinu til kynna að mengunin sé vel undir hættumörkum. Mælirinn er staðsettur á lögreglustöðinni á Sauðárkróki.

Vernharð vill þó árétta að ef fólk finnur fyrir óþægindum í öndunarfærum eða augum þá er þeim ráðlagt að vera innandyra, loka gluggum og hækka á ofnum til að koma í veg fyrir að mengun berist inn.

Helstu einkennin eru erting í augum, hálsi og öndunarfærum og við háan styrk getur fólk fundið fyrir öndunarörðugleikum. Fólk með undirliggjandi astma, berkjubólgu, lungnaþembu og hjartasjúkdóma er viðkvæmara fyrir SO2, heldur en heilbrigðir einstaklingar og fær einkenni við lægri styrk en aðrir. Þeim er því ráðlagt að hafa öndunarfæralyf tiltæk.

Nauðsynlegt er að muna eftir dýrunum líka og alls ekki láta dýr reyna á sig við þannig aðstæður.

Nánari upplýsingar má finna á vef Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnunar og Sóttvarnarlæknis.

Fleiri fréttir