Gauti Ásbjörnsson kjörinn Íþróttamaður Skagafjarðar 2010

Gauti Ásbjörnsson stangarstökkvari úr Tindastól var útnefndur Íþróttamaður Skagafjarðar 2010 í hófi sem UMSS hélt í Húsi frítímans á Sauðárkróki í gærkvöldi.

Gauti bætti sinn fyrri árangur í stangarstökki innanhúss strax í upphafi árs, úr 4,42m (frá 2009) í 4,60m á 3 mótum (4,52m, 4,53m og 4,60m).  Með þessum árangri er Gauti í 1.-3. sæti á “Afrekaskrá FRÍ innanhúss 2009-2010”.

Í júníbyrjun stórbætti Gauti sinn fyrri árangur utanhúss, (4,50m frá 2007), þegar hann stökk 4,65m á móti í Gautaborg.

Gauti var valinn í landslið Íslands sem keppti í Evrópubikar-3.deild á Möltu.  Þar hafnaði Gauti í 4. sæti í 15 þjóða keppni, stökk 4,50m.  Íslenska landsliðið hafnaði einnig í 4. sæti.

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum fór fram á Laugardalsvelli í júlí.  Þar náði Gauti sínum besta árangri og varð Íslandsmeistari í stangarstökki, stökk 4,72m. Þá hafði hann bætt sinn fyrri árangur um 22cm í sumar.

Árangurinn í sumar skipar Gauta í 1. sæti á “Afrekaskrá FRÍ utanhúss 2010”.  Þessi árangur er einnig besti árangur Íslendings í stangarstökki í 6 ár, eða síðan Jón Arnar Magnússon UMSS stökk 4,90m á Landsmóti UMFÍ 2004 á Sauðárkróki.

/Tindastóll.is

Fleiri fréttir