Gengið saman á Hólum
Á sunnudaginn var, 5. september, var gengið saman á sjö stöðum á landinu meðal annars á Hólum í Hjaltadal. Með göngunni var gengið til liðs við læknavísindin en um er að ræða styrktargöngu þar sem fullorðnir þátttakendur greiða 3000 kr í sjóð sem veitir síðan styrki til innlendra grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.
Aðstandendum göngunnar í Skagafirði var það mikið gleðiefni hve margir tóku þátt (64), konur og karlar á öllum aldri ásamt slatta af börnum. Fólk gat valið um að fara 3 km og 7 km. Gengið var um skógræktina á Hólum en þeir sem fóru lengri leiðina teygðu sig út fyrir hana og yfir í Víðines. Báðar leiðirnar eru mjög fallegar og ekki skemmdi veðrið fyrir. Sól skein í heiði og hitinn var um 20 gráður.
Styrktarfélagið Göngum saman var stofnað fyrir þremur árum. Þá ákvað hópur kvenna, sem flestar áttu það sameiginlegt að tengjast Gunnhildi Óskarsdóttur formanni félagsins, að taka þátt í Avon göngunni í New York. Til að taka þátt í þeirri göngu þurfti hver kona að safna 1.800 dollurum til styrktar rannsóknum á krabbameini í brjóstum. Göngum saman hópurinn ákvað í kjölfarið að stofna félag sem hefði það að markmiði að styrkja innlendar grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Framkvæmdastjóri félagsins er Margrét Baldursdóttir, en gaman er að geta þess að hún lauk diplómanámi við Háskólann á Hólum í viðburðastjórnun í fyrra.
Skipuleggjendur göngunnar vilja koma á framfæri miklu þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í göngunni og styrktu um leið mikilvægt málefni.
Sólrún Harðardóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.