Gert ráð fyrir skólahaldi á Borðeyri út skólaárið 2017-18
Gert er ráð fyrir að skólahald á Borðeyri verði óbreytt frá 1. janúar á næsta ári og út skólaárið 2017-2018, samkvæmt bókun sveitarstjórnar Húnaþing vestra frá 26. Þessa mánaðar. Er það miðað við þær forsendur að nemendafjöldi haldist innan þeirra viðmiða sem reiknað er með á þessu tímabili.
„Vilji sveitarstjórnar stendur til þess að halda áfram skólastarfi á Borðeyri en með áframhaldandi fækkun nemenda verður grundvöllur þess sífellt minni, bæði ef horft er til kostnaðar en einnig ef hafðir eru í huga félagslegir hagsmunir nemenda,“ segir í bókun sveitarstjórnar frá fundinum.
Þar segir einnig að ef breytingar verði á nemendafjölda til þess tíma verði fyrirkomulag skólastarfs á Borðeyri endurskoðað. Að þeim tíma loknum verður metið hvernig skólahaldi verður best fyrirkomið í framhaldinu.
Samkvæmt tillögum sviðsstjóra fjölskyldusviðs og skólastjórnenda grunn- og leikskóla að breyttu rekstrarfyrirkomulagi grunn- og leikskóla að Borðeyri verður kennt í þrjá daga á viku á Borðeyri og tvo daga á Hvammstanga. Leikskóli verður lokaður á föstudögum, auk fimmtudaga eins og nú er.