Gilligill diskurinn var ofspilaður á heimilinu / ÁSDÍS AÞENA

Ásdís Aþena. AÐSEND MYND
Ásdís Aþena. AÐSEND MYND

Ásdís Aþena Magnúsdóttir er 18 ára dama frá Hvammstanga, alin upp í Mánagötunni í aðeins nokkurra metra fjarlægð frá Tónlistarskólanum en er nú komin í Verslunarskólann þannig að nú býr hún í Reykjavík á veturna. Foreldrar hennar eru Magnús Eðvaldsson og Ellen Mörk Björnsdóttir. Ásdís Aþena svarar Tón-lystinni að þessu sinni.

Hún segist hafa byrjað fimm ára gömul að læra á píanó og hélt því áfram til 15 ára aldurs. Þá er hún mjög efnileg söngkona og hefur látið ljós sitt skína á ýmsum tónlistartengdum viðburðum á Hvammstanga. Aðspurð um helstu tónlistarafrekin til þessa segir hún eldhress: „Ég gaf út alveg æðislegt jólalag jólin 2020 sem heitir Björt jól, skylda fyrir alla að hlusta á það alla vega fimm sinnum hver jól!“ Ásdís Aþena samdi bæði lag og texta en fékk þó smá aðstoð. „Einar Georg fór yfir textann og lagaði einhverjar 2-3 setningar en Guðmundur Hólmar [tónlistarkennari] samdi reyndar forspilið í laginu,“ segir hún.

Ásdís hefur ekki tekið þátt í söngvarakeppnum eftir grunnskólann en hefur verið að syngja hér og þar. Hún segist hafa sent inn myndband af sér í Idol-keppnina sem verður á Stöð2 í vetur og komst í framhaldsprufur sem fóru fram 30. september. Spurð um hvort hún hafi tekið þátt í nemendasýningum í Verzló segir hún að metnaðurinn í kringum sýningarnar sé mikill og ef hún hefði viljað taka þátt í þeim hefði hún þurft að fórna öllu öðru í 2-3 mánuði, þ.m.t. fótboltanum, en hún spilaði í sumar með sameiginlegu liði Tindastóls/Hvatar/Kormáks í 2. flokki. „Mér finnst samstarfið hafa gengið bara nokkuð vel í mínum flokki allavega. Gaman að það sé loksins komið lið í 2. flokki kvenna aftur,“ segir hun aðspurð um fótboltann. En vindum okkur í Tón-lystina...

Hvaða lag varstu að hlusta á? „Akkúrat núna var ég að hlusta á We Don’t Have To Take Our Clothes Off [með Ella Eyre].“

Uppáhalds tónlistartímabil? „Mér finnst ég ekki eiga mér neitt uppáhalds tímabil en held að flest af mínum uppáhaldslög-um í gegnum tíðina hafi verið frá tímabilinu 2005-2015 þannig við skulum bara segja að það sé uppáhalds tímabilið mitt.“

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Ég elska Eurovision vandræðalega mikið þannig að ég sperri eyrun oft vel þegar Eurovisionlög eru sett á.“

Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? „Þau eru mjög mörg og það breytist yfirleitt á nokkurra daga fresti en ef ég ætti að nefna eitt þá er það örugglega Mary On A Cross akkúrat núna.“

Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið? „Ég væri til í að taka Stingum af með Mugison. Það yrði eitthvað.“

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Man eftir að við höfum hlustað mikið á Mugison, Ásgeir Trausta, Eurovision, Heru Hjartardóttur og Of Monsters and Men.“

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér?Gilligill, sá diskur var ofspilaður á heimilinu.

Hvaða græjur voruð þið þá með? „Geislaspilara.“

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? „Ég elskaði Komdu með inn í álfanna heim úr Benedikt Búálfi. Vann meira að segja söngvarakeppni með því að syngja það þegar ég var 5 ára.“

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? „Betri tíð er ekkert eðlilega leiðinlegt lag, gæti skrifað ritgerð um af hverju það ætti aldrei að spila það aftur.“

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Gull af mönnum.“

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Rólegir sunnu-dagar eru ekki til á mínu heimili, hann elsku pabbi minn rekur mig alltaf á lappir og segir mér „...að fara að gera eitthvað af viti!“

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Ætli ég færi ekki á Harry Styles tónleika í London með Diljá vinkonu minni.“

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? „Eurovision lögum – fékk bílpróf í byrjun júní, stuttu eftir keppnina.“

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? „Mig langaði mikið til að vera Ariana Grande þegar ég var yngri, held það sé enginn sérstakur söngvari sem mig langar til að vera akkúrat núna.“

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? „Ég hlusta voða lítið á heilar plötur, meira bara svona á eitt og eitt lag en mamma mín segir að Dýrð í dauðaþögn með Ásgeiri Trausta sé óumdeilanlega besta plata sem gefin hefur verið út.“

Topp 5 hjá Ásdísi Aþenu:
We Have It All / PIM STONES
Primadonna / MARINA
Mommy Issues / CLOUDY JUNE
Mary On A Cross / GHOST
De diepte / S10

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir