Gjörónýtur eftir bílveltu við Geitagerði

Bílvelta varð í hálku við Geitagerði í Skagafirði sl. sunnudag. Mikið mildi þykir að bílstjórinn hafi sloppið með lítils háttar meiðsl eftir að bíllinn fór tvær til þrjár veltur útaf veginum. Bílstjórinn var með bílbelti sem hafa klárlega bjargað en bíllinn er gjörónýtur.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Sauðárkróki varð annað umferðarslys vegna hálku síðar um kvöldið þegar bifreið var ekið á ljósastaur á móts við N1 á Sauðárkróki. Að sögn lögreglunnar urðu engin slys á fólki en tjón mikið á bílnum.   

Í síðustu viku var ekið á girðingu sunnan megin við Íþróttahúsið á Sauðárkróki og urðu við það þó nokkrar skemmdir. Ökumaður bifreiðarinnar lét sig hverfa eftir verknaðinn en að sögn lögreglunnar var málið upplýst í gær og búið að hafa upp á tjónvaldinum. Miklar skemmdir urðu á bifreiðinni.

Í dagbók lögreglunnar á Sauðárkróki kemur ennfremur fram að nokkuð hefur verið um hraðaakstur í Blönduhlíð en þar sjö voru ákærðir fyrir hraðaakstur í síðustu viku.

 

Fleiri fréttir