Góð mæting á opna fundi um sameiningu í Austur-Húnavatnssýslu

Frá fundum Ráðrík ehf. Mynd: sameining.huni.is
Frá fundum Ráðrík ehf. Mynd: sameining.huni.is

Góð aðsókn var á opna fundi sem ráðgjafarfyrirtækið Ráðrík ehf. efndi til í Austur-Húnavatnssýslu í síðustu viku í því skyni að ræða framtíðarskipan sveitarfélaganna í sýslunni og til að kanna viðhorf íbúanna til sameiningar.  Á þriðja hundrað manns sóttu fundina sem haldnir voru á sex stöðum á svæðinu.

Misjafnt var eftir svæðum hvaða málefni voru mönnum efst í huga; í Húnavatnshreppi og Skagabyggð voru fjallskilamál mönnum hugleikin og í Húnavatnshreppi voru skólamálin ofarlega á baugi. Íþrótta- og æskulýðsmál voru mikið rædd og þeir möguleikar sem skapast gætu í sameinuðu sveitarfélagi.

„En það voru atvinnumálin sem voru fyrirferðamest og þá sérstaklega sóknarfæri í ferðaþjónustunni sem þykir óplægður akur í sýslunni. Uppbygging á fjölbreyttara atvinnulífi er forsenda viðsnúnings í mannfjöldaþróun í sýslunni,“ segir í fréttatilkynningu frá Ráðrík ehf.

Undir lok mánaðarins munu ráðgjafar frá Ráðrík ehf. hitta sameiningarnefndina þar sem farið verður yfir stöðu mála en að þeim fundi loknum verður gert hlé á vinnunnunni fram yfir sveitarstjórnarkosningarnar í lok maí.

Hægt er að fylgjast með fréttum og öðru því er að sameiningarmálefnum lýtur á upplýsingavef um sameiningu sveitarfélaganna. Slóðin á vefinn er:sameining.huni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir