Goðdalir – Nýir skagfirskir gæðaostar frá Mjólkursamlagi KS

Nafni klikkar ekki!
Nafni klikkar ekki!

Nú nýlega settu Mjólkursamlag KS og MS á markaðinn þrjá nýja osta undir yfirheitinu, Goðdalir – Skagfirskir gæðaostar. Um er að ræða ostana Gretti, Reyki og svo að sjálfsögðu Feyki en hann fékkst áður undir nafninu Gull Tindur. Að sögn Jóns Þórs Jósepssonar, framleiðslustjóra Mjólkursamlags KS, þá stendur til að fjölga tegundum í þessari vörulínu.

Einhverjir gætu verið hugsi yfir nafna ostanna en í kynningarefni um þá segir. „Goðdalir er hið forna heiti Skagafjarðardala þar sem jökulfljótin hafa fossað um gljúfrin frá örófi alda og borið fram efni í blómlega akra og bragðmikinn ost. Í Landnámu segir að Eiríkur Hróaldsson hafi numið Goðdali alla. Þar virðist átt við landið sem nær yfir dalina þrjá: Vesturdal, Svartárdal og Austurdal.“

Aðspurður um hvað liggi að baki því að búa til nýjan ost og setja á markað segir Jón Þór: „Þessi nýja vörulína er að mörgu leyti sérstök á ýmsa vegu. Þarna er um að ræða osta sem hafa þurft að fá töluvert aðra meðhöndlun en aðrir hefðbundnir ostar. Um er að ræða handverk þar sem allt þarf að falla saman svo úr verði úrvals afurð. Sem dæmi má nefna að á meðan lageringu stendur þá þarf að snúa ostunum reglulega svo lögun og bragð verði með eðlilegu móti. Eins þarf að bera á ostana átta umferðir af sérstakri ostamálningu sem gerir það að verkum að vatnsinnihald minnkar og bragðið verður sterkara,“ segir Jón Þór. Goðdalir eru lengi í framleiðslu en sem dæmi þá er Feykir ostur sem hefur þroskast í 12 mánuði eða lengur. „Þessir ostar eru sannarlega nýjung á íslenskum markaði og hafa sambærilegir ostar verið fluttir inn í töluverðu magni fram að þessu. Þeir ostar eru m.a. Old Amsterdam og Primadonna.“

Er von á fleiri spennandi ostum frá KS? „Til stendur að fjölga tegundum í þessari vörulínu, bjóða m.a. upp á Feyki 24 mánaða ásamt öðrum spennandi valkostum. Allt tekur þetta tíma, en þess má geta að þegar tekin var ákvörðum um að fara í framleiðslu á þessum ostum þá vissu menn að þetta yrði tímafrekt. Sá tímarammi sem menn settu sér varðandi verkefnið var fimm ár, frá því hugmynd fæðist þar til menn hefðu í höndunum tilbúna afurð ásamt stöðluðu framleiðsluferli,“ segir Jón Þór og bætir við að nú séu nákvæmlega fjögur ár síðan tekin var ákvörðun um að þróa framleiðslu á svona hringlaga ostum og hafa margir starfsmenn komið að þeirri vinnu.

Hægt er að nálgast fínar upplýsingar um ostana og með hvaða mat þeir henta best á kynningarsíðunni goddalir.is >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir