Góðgerðardagur í dag

Vala Mist Valsdóttir.
Vala Mist Valsdóttir.

Í dag er mikill góðgerðardagur á Sauðarkróki þar sem safnað verður fyrir fjölskyldu Völu Mistar, ungu stúlkunnar Vals Valssonar og Lilju Gunnlaugsdóttur. Þau dvelja enn í Svíþjóð vegna veikinda Völu Mistar. Á Hard Wok er hægt að fá sérstakan styrktarhamborgara í dag þar sem ágóðinn rennur í sjóð Völu Mistar og svo ætla Kiwaniskonur að standa fyrir góðgerða Yoga þar sem aðgangseyrinn rennur til góðgerðamála í heimabyggð.

„Okkur langar að benda á að við verðum með opið fyrir Burger í allan dag frá 11.30 til 21.30 þannig að ef þú kemst ekki að á þessum venjulegu matmálstímum þá er tilvalið að mæta á milli 14.00-17.00 eða 20.30-21.30. Gerum þetta af frábærum degi!“ segir á fésbókarsíðu Hard Wok.

Allir eru hvattir til að krækja sér í hamborgara og reyna að sneiða hjá álagstímunum til að dreifa álaginu sem mest enda hvað er betra en að fá sér hamborgara í seinna kaffinu? 

Yoga-tími Kiwanisklúbbsins Freyju verður í félagsheimilinu Ljósheimum klukkan 18:00 í dag, aðgangseyrir 1500 kr. og rennur allur ágóði til góðgerða mála í heimabyggð. Yoga-kennarinn og staðarhaldarar Ljósheima munu gefa sína vinnu og fá þau þökk fyrir.

„Og hérna erum við ennþá, að leysa þetta verkefni, þar sem við förum skref áfram og erum slegin aftur til baka, en alltaf stöndum við á fætur og höldum áfram. Og ég gæti ekki haldið áfram ef ég væri ennþá bara hrædd og leyfði mér ekki að gleðjast. Því stundirnar með litlu ofurhetjunni okkar eru ómetanlegar, fyrsta brosið, hvernig hún hjúfrar sig að manni þegar maður er að kúra með henni, að hún róist við erfiðar aðstæður þegar ég syng fyrir hana (sem er reyndar vísbending um að hún sé tónblind en það er önnur saga) og öll augnablikin þar sem maður liggur með henni og finnur ró og hamingju hellast yfir sig,“ segir í færslu Lilju móður Völu Mistar en hún heldur úti bloggi á Styrktarsíðu stúlku Valsdóttur.

Fleiri fréttir