Góður aðalfundur hjá UMF Tindastól

Aðalfundur UMF Tindastóls vegna ársins 2008 var haldinn í gærkvöld á fundingum var meðal annars Ísak Einarsson kjörinn íþróttamaður Tindastóls en starfsbikarinn hlaut Rannveig Helgadóttir

Áfram Tindastóll

 

Nýr stjórnarmaður í aðalstjórn var kjörinn Jón Daníel Jónsson.  Með honum í stjórninni eru Gunnar Þór Gestsson, Magnús Helgason, Elínborg Svavarsdóttir og Kristjana Jónsdóttir.

 

Á aðalfundinum voru hefðbundin aðalfundarstörf þar sem meðal annars var farið yfir reikninga aðalstjórnar.  Eftir fyrirspurn úr sal urðu umræður um kostnaðarreikning frá Nýprent sem gjaldkeri taldi vera vegna birtingar greinar í fréttablaðinu Feyki.  Þessi misskilningur var ekki leiðréttur fyrr en eftir lok fundarins svo að einhverjir fundargestur fóru heim á leið með þær hugmyndir að Nýprent tæki gjald fyrir að birta aðsendar greinar í Feyki. - Þetta er að sjálfsögðu alrangt og viljum við biðjast innilegrar afsökunar á þessu.  Hið rétt í málinu er að Nýprent var að prenta á auglýsingaskilti fyrir félagið og það skýrir viðkomandi reikning, segir í yfirlýsingu frá Tindastóli.

 

Sævar Pétursson, nýráðinn íþróttafulltrúi Skagafjarðar kom og kynnti sig og starfið fyrir fundarmönnum.  Heilmikil umræða spannst um hlutverk Sævars bæði sem íþróttafulltrúa og sem félagsmanns í Tindastóli.  Fundarmenn voru ánægðir með svör sem Sævar og stjórnarmenn Tindastóls gáfu og ljóst að samvinna Sævars og stjórnarmanna í Tindastóli verður að vera náin í framtíðinni.

 

Kristján Björn Snorrason kom fyrir hönd Sparisjóðs Skagafjarðar og kynnti nýjan styrktarsamning á milli Tindastóls og Sparisjóðsins.  Samningurinn var undirritaður og fundarmenn lýstu yfir ánægju sinni með framtak Sparisjóðsmanna sem þarna sýndu frumkvæði til að styrkja duglega við bakið á þeirri sjálfboðavinnu sem unnin er í félaginu.

 

Ísak Sigurjón Einarsson var valinn íþróttamaður Tindastóls fyrir árið 2008.  Ísak var fyrr í vetur útnefndur dugnaðarforkur úrvalsdeildar í körfuknattleik og körfuknattleiksmaður Tindastóls.  Hann er vel að þessum heiðri kominn og viljum við með þessu þakka honum fyrir hans framlag í starfssemi félagsins.  Auk hans voru fjórir aðilar tilnefndir; Bjarki Már Árnason sem knattspyrnumaður ársins, Linda Björk Valbjörnsdóttir sem frjálsíþróttakona ársins, Steinunn Snorradóttir sem sundkona ársins og Sævar Birgisson sem skíðamaður ársins.  Þessum aðilum var einnig veitt viðurkenning fyrir þeirra framlag til félagsins.

 

Rannveig Helgadóttir var sæmd starfsbikar sem er viðurkenning fyrir þann aðila sem einna mest starfar fyrir félagið.  Rannveig Helgadóttir hefur í mörg ár unnið fyrir félagið ómælt starf, er í stjórn skíðadeildar og vinnur einnig mikið sjálfboðaliðsstarf fyrir aðrar deildir.  Það er mat aðalstjórnar að Rannveig sé vel að þessari viðurkenningu komin.

 

Að lokum voru veittir tveir styrkir úr minningarsjóði um Rúnar Inga Björnsson.  Linda Björk Valbjörnsdóttir fékk styrk til að keppnis- og æfingaferða á vegum félagsins og þriðji flokkur kvenna í knattspyrnu fékk styrk vegna keppnis- og æfingarferðar á komandi sumri.

 

Ómar Bragi Stefánsson kynnti komandi unglingalandsmót sem verður haldið á Sauðárkróki næstu verslunarmannahelgi og fundarmenn fengu veitingar í boði Sparisjóðs Skagafjarðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir