Góður árangur Skagfirðinga á Silfurleikum ÍR
Metþátttaka var á Silfurleikum ÍR, sem fram fóru í Laugardalshöllinni í Reykjavík, laugardaginn 22. nóvember. Mótið, sem er fyrir börn og unglinga 16 ára og yngri, var nú haldið í 13. sinn, en með því vilja ÍR-ingar minnast silfurverðlaunanna sem Vilhjálmur Einarsson vann í þrístökki á Ólympíuleikunum 1956.
Keppendum hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum og nú voru þeir um 600.
UMSS sendi 15 keppendur á mótið sem stóðu sig frábærlega. Mikla athygli vöktu þær Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir og Fríða Isabel Friðriksdóttir, sem kepptu í flokki 9-10 ára hnáta, en þær sigruðu í öllum fjórum greinunum í sínum flokki og tvöfalt í tveimur greinum.
Besti árangur Skagfirðinganna:
Flokkur 8 ára og yngri:
Sæþór Hinriksson sigraði í 60m hlaupi, varð í 2. sæti í langstökki og 3. í 400m.
Flokkur 9-10 ára:
Fríða Isabel Friðriksdóttir sigraði í 60m og 600m og varð í 2. sæti í langstökki.
Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir sigraði í langstökki og kúluvarpi og varð 2. í 60m.
Flokkur 13-14 ára:
Kolbjörg Katla Hinriksdóttir varð í 3. sæti í 800m hlaupi.
Flokkur 15-16 ára:
Linda Björk Valbjörnsdóttir sigraði í 60m grind og 800m og varð í 3. sæti í 60m.
Guðjón Ingimundarson varð í 2. sæti í 60m grindahlaupi.
Vignir Gunnarsson varð í 3. sæti í þrístökki
Aðrir keppendur stóðu sig einnig með prýði.
Til hamingju með árangurinn !