Góður gangur í uppbyggingu gagnavers á Blönduósi

Gagnaverið á Blönduósi. Myndin er tekin í september. Mynd:FE
Gagnaverið á Blönduósi. Myndin er tekin í september. Mynd:FE

Vel miðar við uppbyggingu gagnavers á Blönduósi og er nú fyrsta húsið af sex tilbúið og hefur það verið tekið í notkun. Búið er að steypa plötuna á öðru húsinu og teknir hafa verið grunnar að tveimur að því er segir í frétt á vefmiðlinum húna.is í dag.

Í Viðskiptablaðinu þann 8. nóvember sl. er viðtal við Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóra Etix Everywhere Borealis, sem stendur að uppbyggingunni en fyrirtækið varð til við kaup gagnaversfyrirtækisins Etix Everywhere á íslenska félaginu Borealis Data center fyrr í haust og er það í 55% eigu hins erlenda fyrirtækis. Félagið hefur ráðið tugi manns í milljarðauppbyggingu á gagnaverum á Fitjum í Njarðvík og á Blönduósi.

„Á Blönduósi erum við með um 50 manns við uppbygginguna þar í nokkrum byggingum sem verða um 700 fermetrar hvert. Við erum nú að koma upp húsi tvö sem verður líka tilbúið eftir um mánuð en þar erum við einnig byrjuð á þriðja húsinu sem verður tilbúið öðru hvoru megin við áramótin. Auk þess höfum við mikinn áhuga á að byggja upp viðhaldsvinnu og annað í kringum svona rekstur fyrir norðan sem myndi þýða að starfsmannafjöldinn þar yrði meiri en ella, sem gæti verið allt að helmingur þess fjölda sem nú vinnur við uppbygginguna,“ segir Björn í viðtalinu við Viðskiptablaðið.

Frétt Viðskiptablaðsins má nálgast hér: http://www.vb.is/frettir/milljarda-fjarfesting-i-gagnaverum/150803/?q=Etix%20Everywhere%20Borealis.
Tengd frétt: Etix Group eignast ráðandi hlut í Borealis Data Center

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir