Góður hópur á fyrsta fundi Leikfélagsins
Stórgóð mæting var á fyrsta fundi fyrir Sæluvikustykki Leikfélags Sauðárkróks í gærkvöldi en boðað hafði verið til fundarins til að kanna áhuga á því að setja upp leikritið Fólkið í blokkinni etir Ólaf Hauk Símonarson.
Alls mættu 26 manns á fundinn og að auki voru fimm aðrir búnir að tilkynna formanni þátttöku sína. Í þessum fjölmenna hópi hafa allir reynslu af leikhúsvinnu, flestir hafa leikið í einu eða fleiri leikritum hjá LS og ekki síst er mikill fengur í að hafa reynt fólk til að sinna tæknimálum, hárgreiðslu og annarri baksviðsvinnu, segir á heimasíðu Leikfélagsins.
Fólkið í blokkinni verður því frumsýnt í Bifröst sunnudaginn 25. apríl á opnunardegi Sæluviku.