Gömlu gullin í Húnaþingi vestra
Í Húnaþingi vestra starfar handverkshópur sem vinnur úr gærum, töglum, hornum, beinum, klaufum, hófum og ýmsu öðrum hráefnum sem til falla í Sláturhúsinu á Hvammstanga.
Áður var þessum hráefnum yfirleitt hent, ef undan eru skildar gærurnar, en þær verka þau með gamla laginu. Feykir heimsótti hópinn á vordögum og fékk að fylgjast með þvotti á gærum og skoða ýmsar afurðir þessa afkastamikla hóps.
Að sögn Unnar Grétu Haraldsdóttur, sem er ein af forsprökkum hópsins, hefur hann vinnuheitið „Gömlu gullin.“ „Það er líka svo gott að þýða það, old gold“ segir hún og hlær. Það ríkir glaðleg stemning í hópnum sem var samankominn í húsnæði sláturhússins þegar blaðamann bar að garði. Um fimmtán virkir meðlimir eru í hópnum og sá yngsti er tíu ára sonur Unnar, Jón Gautur Magnússon, sem býr til lyklakippur úr hornum og selur á handverksmarkaði. Einnig hjálpar hann til við að verka gærurnar. Er það gert með gamla laginu og engin kemísk efni notuð við verkunina.
Upphafið að handverksiðju hópsins voru námskeið sem haldin voru á vegum Grettistaks og Bardúsu með dyggum stuðningi Menningarráðs NLV. „Svo styður fyrirmyndarfyrirtækið SKVH okkur með því að lána aðstöðu og hirða það sem áður var hent. Þetta er því afar umhverfisvænt,“ segir Unnur. Gærurnar veljum við ýmist á fæti heima hjá bændum eða í sláturhúsinu.„Þau lömb sem þykja frekar ljót á litinn gefa oft fallegustu gærurnar“ bætir Guðrún Hálfdánardóttir við, en hún er bóndi á Söndum í Miðfirði og fæst við fjölbreytt handverk.
Auk þess að hittast öðru hvoru í Sláturhúsinu til að verka gærur með gamla laginu hittist hópurinn reglulega í bílskúr á staðnum. Unnur leggur áherslu á að það sé hópvinnan sem geri þetta svo skemmtilegt og haldi mönnum við efnið. Afurðir hópsins fást meðal annars keyptar hjá Bardúsu á Hvammstanga og Spes sveitamarkaði í Grettisbóli á Laugarbakka. Einnig eru einhverjir úr hópnum að selja sínar vörur í Reykjavík og eru með sölusíður á facebook