Gómsætt fyrir gangnamenn - Ekta íslensk kjötsúpa og rúgbrauð

Íslensk kjötsúpa.
Íslensk kjötsúpa.

Þessar uppskriftir birtust í 34. tbl. Feykis árið 2016.

Á haustdögum þegar göngur og réttir eru í aðalhlutverki er fátt betra en sjóðheitar og saðsamar súpur. Þar er íslenska kjötsúpan í öndvegi. Feykir gerði óformlega og óvísindalega rannsókn á því hver væri hin eina sanna íslenska kjötsúpa. Skemmst er frá að segja að hún er vandfundin, enda er það með kjötsúpu eins og góða kjaftasögu að hún breytist í meðförum manna. Því var ákveðið að láta gilda uppskrift sem gerð er opinber á vefsíðunni lambakjöt.is.

Lesendur geta svo leikið sér með uppskriftina. Margir setja haframjöl í kjötsúpu og enn aðrir bygg. Ferskar kryddjurtir eru mjög í tísku í matargerð og passa margar hverjar ágætlega í kjötsúpuna. Þá er hægt að nota gúllas í staðinn fyrir súpukjöt. Loks er hægt að gera kjötsúpu með engu kjöti, sem þá er reyndar orðin grænmetissúpa, og bæta grænkáli og öðrum grænmetistegundum út í. Feykir mælir þó ekki með að þessar tilraunir séu gerðar á gagnamönnum, enda gæti verið viðkvæmt mál að koma örþreyttur úr göngum og komast að því að kjötsúpan sé ekki „ekta.“

Íslensk kjötsúpa
Hráefni:

U.þ.b. 3 l vatn
2½ kg kjöt á beini
400 g rófur
400 g kartöflur
200 g gulrætur
40 g hrísgrjón
1 stk lítill laukur
u.b.þ. 5 cm púrrulaukur
u.þ.b. 5 msk súpujurtir
u.þ.b. 2 msk salt
svartur pipar

Leiðbeiningar:
Setjið vatnið í pottinn, skerið kjötið niður í bita og fituhreinsið ef þið viljið. Setjið kjötið í pottinn og látið suðuna koma upp. Fleytið mest allan sorann ofan af kjötinu og látið suðuna koma upp. Skerið niður grænmetið eins smátt og þið viljið. Setjið svo allt saman í pottinn og sjóðið í u.þ.b. 60 mín frá því kjötið fór í pottinn.

Rúgbrauð

Því er líklega svipað farið með rúgbrauðið og kjötsúpuna að hver notar sínar uppskrift. Gjarnan ganga uppskriftir kynslóð fram af kynslóð í handskrifuðum uppskriftabókum sem eru orðnar svo útataðar í matarklessum að þær eru næstum ólæsilegar. En einmitt þetta eru bestu uppskriftirnar og takmarkið oft að ná að gera afurðina jafn góða og hjá mömmu eða Gunnu frænku. En látum eina uppskrift af rúgbrauði fylgja, sem sniðugt er að baka í steikarpottinum.

6 bollar rúgmjöl (1 kg)

Rúgbrauð.


3 bollar heilhveiti
4½ tsk matarsódi
500 g sýróp
1½ l súrmjólk
2 msk hunang

Aðferð:
Deigið er hrært með sleif og bakað í steikarpotti með lokinu á. Ef uppskriftin er tvöfölduð passar hún í stóru svörtu steikarpottana, en annars í þá litlu. Það verður bara að vera ílát með loki eða álpappír þétt yfir. Þetta bakast síðan í 6½ klukkutíma við 100°C. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir