Göngum hreint til verks
Miklu máli skiptir hvernig til tekst við að hefja landið og þjóðina til vegs og virðingar á ný. Mér virðist sem stjórnmálaflokkarnir séu almennt ekki búnir að segja þjóðinni hvernig þeir hyggist ná því markmiði. Ástæðurnar kunna að vera margþættar. Það er erfitt fyrir leikmenn að átta sig á stöðunni, en mér segir svo hugur um að annaðhvort sé vandinn ekki vel þekktur eða að ráðamenn vilji ekki segja okkur hver staðan er. Líklega er það hið fyrrnefnda og ræður efnahagsreikningur bankanna miklu um. Nú er sagt að þessar upplýsingar liggi fyrir í apríl en líklega verður það ekki fyrr en í maí.
Að mínu viti er ekki nóg að endurskoða starfsemi bankanna heldur verðum við einnig að beina sjónum okkar að íslenskri pólitík. Breyta þarf hugsunarhætti og því hvernig stjórnmálamenn vinna. Ég hef gagnrýnt margt sem gert hefur verið. En til hvers? Til að vita og skilja hvað skal forðast og til hvers skal vanda til í endurreisn íslensks efnahagslífs.
Við þurfum að:
1. Einkavæða bankanna eins fljótt og kostur er. Tryggja dreifða eignaraðild, án allrar pólitískrar spillingar og greiðasemi .
2. Leggja af pólitískar ráðningar. Ráða hæfasta fólkið, sama hvaða stjórnmálaskoðanir það hefur. Stjórnmálamenn eiga að geta, í krafti reynslu sinnar og þekkingar, fengið störf við hæfi í einkageiranum – ríkið á ekki að ráða slíka menn í tilbúin störf eða geyma stóla fyrir þá.
3. Koma á meira gagnsæi í viðskiptum og störfum ríkisins og beitum pólitískum vilja til að nýta það gagnsæi. Bregðumst hart við tilraunum til að „leika á kerfið“.
4. Stuðla að samkeppni en ekki fákeppni. Leyfum ekki þá samþjöppun sem verið hefur á matvöru- og fjölmiðlamarkaði. Það er engum hollt. Ég held að allir sjái það.
5. Finna framtíðarlausn á þeim gjaldeyrisvanda sem við glímum við.
6. Sýna aðhald í rekstri ríkis og sveitarfélaga.
7. Fá betri og sannari yfirsýn yfir fjármálamarkaðinn og hagstærðir á Íslandi almennt. Við þurfum sterka stofnun sem veitir ríki og sveitarfélögum aðhald og stjórnmálamönnum og fjölmiðlamönnum réttar upplýsingar
8. Styrkja eftirlit með samkeppni, fjármálum, rekstri banka o.þ.h. og pólitískan vilja til að beita þeim tækjum sem til eru – eða smíða ný sem duga.
9. Efla siðferði í öllu sem viðkemur stjórnmálum og viðskiptum. Samhliða þessu eigum við að gera kröfu um pólitísk ábyrgð. Pólitísk ábyrgð snýst ekki um að kjörinn fulltrúi eigi að sitja sem fastast þrátt fyrir mistök hans sjálfs eða undirmanna, heldur hið gagnstæða.
10. Ræða stóru málin sem brenna á okkur öllum. Evrópumálin, gjaldeyrismálin, störf Alþingis og ríkisfjármál. Hætta sandkassaleik og slagorðaslagsmálum. Láta þarf af geipi þingmanna um fánýta hluti og forgangsraða.
Til allra þessara hluta verður að taka tillit. Vandinn er ærinn og kallar á mikla endurskoðun og sjálfsmat. Það er vel hægt að reisa landið við. Vinnusemi og dugnaður hafa lengi verið einkenni íslensku þjóðarinnar. Nú spyr ég, af því að ég veit það ekki, eru opinberir starfsmenn í embættismannakerfinu, stjórnmálamenn og aðrir sem nú eiga að vera að leysa vanda Íslendinga að vinna nóg? Eru helgarnar undirlagðar? Eða stimpla menn sig út klukkan 17.00? Ég veit það ekki, en ég vona að sá hugsunarháttur sé uppi að nú verði allir að leggjast á árar og litlu skipti hvað klukku eða dagatali líður. Auðvitað er ég ekki að mælast til þess að allir keyri sig út – en það er klárt að það er „vertíð“, svo notuð sé myndlíking úr sjávarútvegi og þá verða allir einfaldlega að bretta upp ermar.
Og það er það sem bíður stjórnmálamanna. Látum hendur standa fram úr ermum og göngum hreint til verks. Næg eru verkefnin.
Sigurður Örn Ágústsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.