Göngum í skólann lýkur í dag

Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er í dag, miðvikudaginn 8. október, og þar með lýkur átakinu sem hófst þann 10. september sl. Hér á landi eru 66 skólar skráðir til leiks og hafa aldrei verið fleiri samkvæmt fréttatilkynningu frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.

„Nemendur, foreldrar og starfsfólk þátttökuskólana hafa verið hvattir til þess að nota virkan ferðamáta, ganga eða hjóla í skólann síðastliðinn mánuð. Í mörgum skólum er m.a. keppt um gullskóinn milli bekkja eða bekkjardeilda, skólavinir, sem eru eldri nemendur, eru hvattir til að sýna yngri nemendum styðstu og öruggustu leiðina í skólann, nemendur hafa mælt vegalengdina í skólann og bíllausi dagurinn haldinn hátíðlegur. Skólarnir hafa einnig beint kastljósinu á fræðslu um umferðaröryggi og mikilvægi hreyfingar með því að fara í fjallgöngur, taka þátt í norræna skólahlaupinu eða hafa heilsu og hreyfidaga,“ segir í tilkynningunni.

Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla. Um leið er ætlunin að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar. Kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál.

Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, embætti Landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umferðastofa og Landssamtökin Heimili og skóli.

Fleiri fréttir