Græna tunnan að komast til skila
Verið er að dreifa sorpflokkunartunnum á Sauðárkróki en fyrir dyrum stendur breytingar á sorphirðu í Skagafirði. Íbúar fá grænu tunnuna endurgjaldslaust.
Síðasta sorphirða upp á gamla mátann verður föstudaginn 12. febrúar en þá verður ekki settur poki í tunnurnar eins og verið hefur. Eftir þann tíma verða íbúar að flokka sorpið eftir kúnstarinnar reglum en þær eru hægt að nálgast hjá Flokku.is en einnig hefur veglegur bæklingur verið sendur í öll hús.
Tekið verður upp svokallað tveggja tunnu kerfi þar sem lífrænn úrgangur fer í sérútbúið hólf sem sett er í aðra tunnuna í stað þess að hafa þrjár tunnur. –Þetta er góð lausn og sparar pening og fullnægir þeim kröfum sem við gerum, segir Jón Örn Berndsen tæknistjóri hjá Sveitarfélaginu. Jón segir að ef menn ætli að byggja skýli utan um tunnurnar er það umsagnarskylt þ.e. ef þau eru sett á lóðamörk eða hæðin á þeim verður meiri en 180 cm. Körfuboltadeild Tindastóls hefur séð um að dreifa tunnunum og verður það að öllum líkindum klárað í kvöld að sögn Helga Rafns Viggósonar sem setið hefur við stýrið á flutningabílnum. Og þá er bara að kíkja í bæklinginn og tileinka sér flokkun.