Grennslast fyrir um ferðafólk í Þórðarhöfða
Lögreglan á Sauðárkróki og Björgunarsveitin Grettir á Hofsósi leitaði ferðafólks í Þórðarhöfða í Skagafirði í gær og fannst fólkið eftir stutta leit að sögn Elvars Más Jóhannssonar formanns Bjsv. Grettis. Um var að ræða franskt par sem hafði gist í Höfðanum um nóttina.
Samkvæmt lögreglunni á Sauðárkróki barst tilkynning til Neyðarlínunnar í gær frá fólki sem franska parið hafði hitt að deginum áður. Parið spurði fólkið hvort óhætt væri að ganga út í Þórðarhöfða og fengu þau svör að svo væri. Þá skildi parið við bílinn sinn og gengu út í Höfðann.
Sólarhring síðar sá fólkið bílinn enn á sama stað og í honum mátti sjá bakpoka parsins, farsíma og gönguskó. Fólkið hafði þá samband við lögreglu sem óskaði eftir aðstoð björgunarsveitarinnar á Hofsósi til að kanna málið.
Átta menn frá Gretti fóru þá af stað, sumir fótgangandi og aðrir með bát meðfram Höfðanum, en eftir stutta eftirgrennslan gengu þeir fram á parið. Að sögn Elvars Más amaði ekkert að parinu þegar björgunarsveitarmenn hittu þau fyrir nema þá það að þau voru mjög undrandi á því að þeirra væri leitað.