Grenvíkingar höfðu betur á Króknum

MYND: ÓAB
MYND: ÓAB

Það var leikinn fótbolti á Sauðárkróksvelli í gær, 20. febrúar, þegar karlalið Tindastóls og Magna frá Grenivík mættust í þriðja riðli B-deildar Lengjubikarsins. Leikið var í ágætu veðri en vindurinn lét lítið fara fyrir sér, eitthvað dropaði en gervigrasið var fagurgrænt. Það voru þó gestirnir sem höfðu betur þegar upp var staðið, skoruðu eina mark leiksins í síðari hálfleik.

Þetta var fyrsti leikur liðanna í Lengjubikarnum en liðin voru bæði í basli undir lok keppnistímabilsins í fyrra; Stólarnir komnir í fallbaráttu í 3. deildinni en lið Magna féll úr 1. deild. Grenvíkingar féllu reyndar á markatölu, voru með 12 stig líkt og Leiknir Fáskrúðsfirði og Þróttur Reykjavík en Þróttarar voru með 24 mörk í mínús en Magnamenn 25 og féllu því ásamt Fáskrúðsfirðingum.

Í gær var það Alexander Ívan Bjarnason sem gerði eina mark leiksins á 68. mínútu og lokatölur. Fjórir leikmenn Tindastóls fengu að líta gula spjaldið frá dómara leiksins. Nokkrir ungir og sprækir drengir í liði Tindastóls sprettu úr spori í sínum fyrsta meistaraflokksleik.

Í riðli með Tindastóli og Magna er einnig lið Kára Akranesi, Augnablik úr Kópavogi, Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og ÍH úr Hafnarfirði. Næsti leikur Stólanna er í Kópavoginum næstkomandi laugardag en síðan kom grannar okkar í KF á Krókinn sunnudaginn 7. mars.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir