„Gríðarlegt byggðarmál til að styrkja dreifðu byggðir landsins“

Sérstök landshlutanefnd fyrir Norðurland vestra, Norðvesturnefnd svokölluð, afhenti forsætisraðherra sl. föstudag tillögur sínar til eflingar Norðurlands vestra. Að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar formanns nefndarinnar er um að ræða tillögur nefndarinnar en hún fundaði m.a. með öllum sveitarstjórnum landshlutans og kallað eftir tillögum en alls eru tillögur nefndarinnar um 25-26 talsins í skýrslunni. Stefán Vagn segir að tillögurnar feli í sér tækifæri fyrir Norðurland vestra og sömuleiðis er. „Þetta tækifæri fyrir landbyggðirnar allar en ef vel tekst til er komið fordæmi og módel sem hægt sé að yfirfæra yfir á þau svæði sem þurfa sérstaka styrkingu. Þetta er risa  byggðarmál,“ segir hann. 

Ríkisstjórnin samþykkti skipun nefndarinnar þann 9. maí sl. og síðan þá hefur nefndin unnið að mótun umræddra tillagna. Stefán Vagn segir hugmyndirnar bæði renna frá nefndinni sjálfri og sveitarfélögunum og að á tímabilinu hafi nefndin einnig fundað með forsætisráðherra og fjármálaráðherra, þeir hafi verið kunnugir hugmyndunum sem var verið að leggja drög að og hvers væri að vænta.

„Við höfum reynt að vinna þetta eins mikið og hægt er með stjórnvöldum, enda lítum við svo á að þetta sé samstarfsverkefni stjórnvalda og okkar að efla svæðið,“ segir Stefán Vagn í samtali við Feyki.

Stefán Vagn bendir á að í Ríkissáttmálanum sé kveðið á um flutning á opinberum störfum út á land og dreifingu á opinberri þjónustu. Einnig að nú sé verið að vinna að Sóknaráætlun landshluta sem sem snýr að eflingu allra landshluta fyrir árið 2020.

„Það er það sem við erum að leggja til í þessari skýrslu. Það hefur verið ljóst allan tímann að skipun þessarar nefndar, sem ríkisstjórn Íslands samþykkti að setja á laggirnar í maí 2014, sé ákveðin viðurkenning á sérstöðu svæðisins og að þörf sé á sértækum aðgerðum fyrir svæðið,“ segir Stefán Vagn og tekur fram að frá árinu 2008 hafi Norðurland vestra farið hve verst út úr niðurskurði ríkisstjórnarinnar.

Á tímabilinu hafi tæplega 60 störf farið af svæðinu, þar af 56 í Skagafirði, en niðurskurðinn segir hann hafa haft mikil áhrif á sveitarfélagið. Á sama tíma hefur atvinnuleysi hins vegar ekki verið mikið, á móti fækkun starfa, sem gefur til kynna að fólkið sé að flytja burt af svæðinu þar sem það fær ekki sérhæfð störf við hæfi.

„Þegar við litum til þessa, þ.e. þessa miklu fækkun starfa og fólksfækkun á svæðinu, þá voru menn sammála um það að það þyrfti að beita einhverjum sértækum aðgerðum fyrir svæðið og sættust á það að setja þessa sértæku nefnd á laggirnar,“ útskýrir hann.

Brýnt að klára þetta mál hið fyrsta

Nefndina skipa breiður grunnur fólks, að sögn Stefáns Vagns, fulltrúa af öllu svæðinu, auk stefnumótunarsérfræðings frá forsætisráðuneytinu og starfsmanni Byggðastofnunar.

Þetta er ekki bara fyrir Skagafjörð eins og fréttaflutningurinn hefur verið, heldur fyrir allt Norðurland vestra. Ef þetta gengur upp er komið módel sem ríkið gæti notað og yfirfært á önnur svæði sem eru í sambærilegri eða svipaðri stöðu,“ segir hann og bætir við að þar séu hagsmunir allrar landsbyggðarinnar jafnframt undir. „Þetta er gríðarlegt byggðarmál. Því er mikilvægt að þessi vinna takist vel og úr verði góð niðurstaða þannig að módelið sanni sig, svo hægt sé að nota það frekar til þess að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins.“

Stefán Vagn segist ekki vilja tjá sig nánar um einstaka tillögur eða kostnað við þær þar sem ákveðinn trúnaður ríki um innihald skýrslunnar en samkvæmt heimildum Rúv.is hefur flutningur skipareksturs Landhelgisgæslunnar til Skagafjarðar m.a. verið nefnd til sögunnar, efling Vinnumálastofnunar á Skagaströnd, bygging gagnavers á Blönduósi, flutningur RARIK á Sauðárkrók og efling menntastofnana á svæðinu.

Næstu skref segir Stefán Vagn vera að nefndin setjist niður með oddvitum ríkisstjórnarflokkanna og fari betur yfir tillögurnar. Í kjölfarið verði að öllum líkindum valið úr tillögunum og þeim sem samstaða er um að farið er í verði ýtt í framkvæmd.

„Það hefur alltaf verið minn skilningur að það eigi að vera trúnaður um þessar tillögur. Mér finnst óábyrgt á þessari stundu að tala um tillögurnar vegna þess að mögulega verða einhverjar þeirra ekki að veruleika. Við í nefndinni eigum eftir að ræða það ásamt forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar með hvaða hætti við gerum þessar tillögur opinberar.“

Stefán áréttar að afar brýnt er að þetta mál verði klárað hið fyrsta, þannig að menn geta lagt skýrsluna og tillögurnar á borðið og kynnt þær tillögur sem samstaða náðist um að farið verði í þannig að verkefnin geti farið af stað hið fyrsta.

Fleiri fréttir