Grunnskólanum á Sólgörðum slitið í síðasta sinn

Starfsfólk Sólgarðaskóla ásamt Jóhanni Bjarnasyni, skólastjóra Grunnskóla austan Vatna sem er lengst til vinstri. Sjöfn Guðmundsdóttir, deildarstjóri; Kristín S. Einarsdóttir, kennari; Íris Jónsdóttir, skólaliði; Jón Sigurmundsson, stuðningsfulltrúi og Alfreð Gestur Símonarson, matráður. Mynd: Svf. Skagafjörður
Starfsfólk Sólgarðaskóla ásamt Jóhanni Bjarnasyni, skólastjóra Grunnskóla austan Vatna sem er lengst til vinstri. Sjöfn Guðmundsdóttir, deildarstjóri; Kristín S. Einarsdóttir, kennari; Íris Jónsdóttir, skólaliði; Jón Sigurmundsson, stuðningsfulltrúi og Alfreð Gestur Símonarson, matráður. Mynd: Svf. Skagafjörður

Grunnskólanum austan Vatna var slitið nú í vikunni þann 28. maí og var fyrsta athöfnin í skólanum á Sólgörðum sem jafnframt voru þau síðustu þar í sveit þar sem nemendum verður héðan í frá keyrt í skólann á Hofsósi. Jóhann Bjarnason skólastjóri og Sjöfn Guðmundsdóttir deildarstjóri fluttu ávörp og Herdís Á Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs sveitarfélagsins afhenti nemendum miðstigs bókina Skín við sólu Skagafjörður.

Kristín Sigurrós Einarsdóttir, umsjónarkennari, rakti 75 ára sögu Sólgarðaskóla en fyrst var kennt í „gamla skólanum“, sem upphaflega var byggður sem sumardvalarstaður fyrir siglfirsk börn á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Núverandi skólahús var tekið í notkun 1985.

Kl. 15 var athöfn á Hólum en á heimasíðu Svf. Skagafjarðar kemur fram að þar hafi vinaliðar verið verðlaunaðir fyrir sína vinnu og nemendur leikskólans Tröllaborgar útskrifaðir og teknir formlega inn í grunnskólann. 7. bekkur útskrifaðist frá Hólum en þau fara í Hofsós næsta skólaár og miðdeildin fékk afhenta bókina Skín við sólu Skagafjörður. Tónlistaratriði frá Tónlistarskólanum voru flutt milli atriða og endað á kaffi og meðlæti.

Kl. 18 var athöfnin á Hofsósi en þar voru vinaliðar einnig verðlaunaðir og miðdeildinni afhent bókin Skín við sólu Skagafjörður. Nemendur 10. bekkjar voru útskrifaðir og verðlaunaðir fyrir góða frammistöðu í hinum ýmsu námsgreinum og fyrir félagsstörf. Íþróttabikarinn var veittur fyrir jákvæðni og góða frammistöðu í íþróttum og tónlistaratriði flutt á milli atriða.

Myndir frá atburðunum má sjá HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir