Guðni á ferð og flugi, í Kakalaskála á sunnudaginn

Guðni Ágústsson og forystukindin Elding frá Grobbholti á Húsavík. Aðsendar myndir.
Guðni Ágústsson og forystukindin Elding frá Grobbholti á Húsavík. Aðsendar myndir.

Kynning verður á bókinni Guðni á ferð og flugi klukkan 14.00 sunnudaginn 14. nóvember í Kakalaskála á Kringlumýri í Skagafirði. Þangað mætir Guðni Ágústsson sjálfur og kynnir bókina ásamt Guðjóni Ragnari Jónassyni sem skrásetti hana. Auk þeirra félaga kemur Geirmundur Valtýsson með nikkuna svo búast má við skemmtilegri stund.

„Gleði og kátína mun svífa yfir vötnum. Guðni Ágústsson er annálaður sagnamaður og einn vinsælasti tækifærisræðumaður þjóðarinnar. Í hugum margra er hann enn hinn eini sanni landbúnaðarráðherra Íslands – framsóknarmaður af lífi og sál og um leið ötull talsmaður landsbyggðarinnar,“ segir Guðjón.

Guðjón Ragnar, skrásetjari, og Guðni
halda á bók í útgáfuhófi á Selfossi. 

Í bókinni fer Guðni með lesandann í ferðalag um hinar dreifðu byggðir Íslands og heimsækir fólk af öllu tagi. Fyrir utan að vera skemmtilegir og forvitnilegir viðmælendur fæst það við spennandi og oft og tíðum nýstárleg viðfangsefni sem styrkja lífið í sveitunum. Guðjón segir að í þessum heimsóknum sé Guðni yfir og allt um kring og hin landskunna „guðníska“ skjóti hvað eftir annað upp kollinum en hann fylgdi Guðna á þessum ferðum og skrásetti á aðgengilegan og grípandi hátt það sem á daga þeirra dreif.

Hér er á ferðinni skemmtileg, fyndin og um leið upplýsandi bók um lífið í sveitum landsins sem rígheldur lesandanum í fylgd með Guðna Ágústssyni frá Brúnastöðum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir