Gullhúðuð aðgengismál? | Álfhildur Leifsdóttir skrifar
Á fundi byggðarráðs Skagafjarðar þann 17. september síðastliðinn óskaði fulltrúi VG og óháðra eftir upplýsingum um störf ráðgefandi hóps um aðgengismál hjá sveitarfélaginu, sjá hér. Í svari byggðarráðs kom fram að sá hópur hafi ekki fundað frá því í október í fyrra. Meirihluti bókaði þó sérstaklega um það að aðgengismál væru í góðu lagi og tóku fram í bókun sinni að Öryrkjabandalag Íslands hefði tekið út sundlaugina á Sauðárkróki í sumar og hefði sú niðurstaða verið “glæsileg, aðgengismálum í hag”. Staðreyndin er hins vegar sú að Öryrkjabandalagið hefur enga úttekt gert á sundlaug Sauðárkróks.
Orð bera ábyrgð
Þegar undirrituð hafði samband við Öryrkjabandalag Íslands til að fá niðurstöður þessarar úttektar kom í ljós að engin formleg úttekt af hálfu ÖBÍ hefur farið fram á sundlauginni á Sauðárkróki. Þetta staðfestir verkefnisstjóri aðgengismála hjá ÖBÍ. Hið rétta er hins vegar að fulltrúar frá Sjálfsbjörgu, landsambands hreyfihamlaðra, tóku út sundlaug Sauðárkróks í sumar en sú úttekt var ekki athugasemdalaus. Hefur þeim athugasemdum enn ekki verið skilað formlega, en ljóst var strax við úttektina að úrbóta er þörf og því hæpið að tala um niðurstöðuna sem ‘glæsilega’ eins og meirihluti leyfir sér að orða það.
Það er afleitt að störf ráðgefandi hóps um aðgengismál hafi legið niðri í sveitarfélaginu Skagafirði frá því í október 2024 og aðgengismál hafi því ekki fengið þann sess sem þau ættu að hafa. Slíkt notendaráð um málefni fatlaðs fólk er lögbundin skylda að starfrækja í öllum sveitarfélögum. Aðgengi er ekki aukaatriði heldur grundvallarmannréttindi og forsenda jafnréttis og samfélagslegrar þátttöku. Aðgengismál snerta ekki aðeins fatlað fólk heldur alla íbúa sveitarfélagsins ekki síst eldri borgara, foreldra með börn í vögnum og öll sem þurfa öruggt og aðgengilegt umhverfi í daglegu lífi. Í bókun meirihluta kom einnig fram að hjá nýbyggingum sveitarfélagsins sé lögð áhersla á að kröfur um aðgengismál séu uppfylltar. Má þar ætla að farið sé eftir Byggingarreglugerð 112/2012 eins og sannarlega skylt er að gera og varla nokkuð til að berja sér á brjóst fyrir.
Óþarfi aðgengisfulltrúinn
Þessi bókun meirihluta vekur upp spurningar um hversu mikil áhersla er raunverulega lögð á að tryggja að öll hafi jafnan aðgang að þjónustu sveitarfélagsins. VG og óháð lögðu til haustið 2022 að sveitarfélagið myndi ráða aðgengisfulltrúa sem myndi sjá til þess að gerðar yrðu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins í víðum skilningi, í takt við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ekki síst var það lagt til í ljósi þess að Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra. Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á þeim tíma höfnuðu tillögunni og bentu á góð störf umrædds aðgengishóps, sem hefur auðsjánlega gengið illa að leiða saman til góðra verka undanfarið ár. Byggðalisti bókaði við þetta tækifæri sérstaklega um hve gott starf væri unnið í aðgengismálum hjá sveitarfélaginu.
Fatlað fólk og hagsmunasamtök þess hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að tryggja aðgengi að sundlaugum en þær gegna lykilhlutverki bæði í heilsueflingu og félagslífi margra en Skagafjörður hefur einmitt verið heilsueflandi samfélag frá árinu 2019. Ljóst er að í Skagafirði þarf að efla þessa vinnu verulega til að allir geti notið heilsueflandi samfélags og sundlauganna til jafns. Slíkt krefst þess að ráðgefandi hópar með sérþekkingu á málefninu séu hafðir með frá upphafi og í gegnum ferlið allt. Ekki þarf einungis að tryggja aðgengi sundlauganna heldur þarf úrbætur mun víðar í sveitarfélaginu þar sem við öll förum um í daglegu lífi. Gerum betur.
Álfhildur Leifsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra