Gunnar Þór Gunnarsson á Stjórnlagaþing
Gunnar Þór Gunnarsson býður sig fram til Stjórnlagaþings. Gunnar er fæddur á Blönduósi þann 20. febrúar 1962 en foreldrar hans eru Hjördís Bára Þorvaldsdóttir og Gunnar Árni Sveinsson, búsett á Skagaströnd. Gunnar Þór var uppalinn á Skagaströnd og bjó þar lengst af en er nú búsettur í Seljahverfi í Reykjavík.
Eiginkona Gunnars Þórs er Bryndís Björk Guðjónsdóttir, einnig uppalin á Skagaströnd. Hún starfar nú á endurskoðunarsviði Pwc. Þau eiga tvær dætur, þær Tinnu Björk Gunnarsdóttur, 25 ára lögfræðing, og Kötlu Björk Gunnarsdóttur, 10 ára.
Gunnar Þór hefur unnið við veiðar, vinnslu og/eða sölu fiskafurða í 35 ár. Hann hefur tekið þátt í sveitarstjórnarmálum og er nú formaður körfuknattleiksdeildar ÍR. Hann hefur alltaf haft mikinn áhuga á atvinnumálum og nýsköpun og rekur nú sitt eigið fyrirtæki, Freska Seafood ehf.
Ástæður þess að Gunnar Þór er í framboði til stjórnlagaþings eru eftirfarandi:
Stjórnarskrá Íslands er sá hornsteinn sem samfélag okkar byggist á og hann hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig hún þarf að vera til þess að hún gegni því hlutverki betur. Gunnar Þór telur mikilvægt að:
- 1) öllum landsmönnum séu í stjórnarskrá tryggð sömu réttindi.
- 2) allir landsmenn skilji og séu meðvitaðir um efni stjórnarskrárinnar. Hún þarf að vera svo skýr og gagnorð að hún verði ekki mistúlkuð. Efni hennar ætti að vera kennt í grunnskólum landsins.
- 3) allar auðlindir við og á Íslandi séu sameign þjóðarinnar allrar. Það verði ekki hægt að veðsetja þær eða selja. Þá verði öllum Íslendingum tryggður réttur til að bjóða í nýtingarrétt þeirra.
- 4) tryggja beinna og virkara lýðræði.
- 5) skerpa á þrígreiningu ríkisvaldsins. Löggjafarvaldið þarf að vera jafn sterkt og framkvæmdavaldið.
Meðal annarra hluta sem Gunnar Þór telur skipta miklu máli er að ný stjórnarskrá sé ekki of bundin við tíðarandann í dag. Hún þarf að eiga jafnt við nú og eftir 100 ár.