Gunnari Þór afhent Gullmerki ÍSÍ fyrir mikil og góð störf

Gunnar Þór Gestsson og Viðar Sigurjónsson. MYND: UMSS
Gunnar Þór Gestsson og Viðar Sigurjónsson. MYND: UMSS

Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) hélt ársþing sitt í félagsheimilinu Tjarnarbæ laugardaginn 27. apríl síðastliðinn. Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Viðar Sigurjónsson en hann notaði tækifærið og veitti Gunnari Þór Gestssyni, formanni UMSS, Gullmerki ÍSÍ á þinginu fyrir mikil og góð störf í þágu íþrótta en Gunnar Þór hefur m.a. setið í fjölmörgum nefndum og starfshópum ÍSÍ.

Fram kemur í frétt á vef ÍSÍ að Gunnari Þór sé óskað innilega til hamingju með viðurkenninguna og um leið er honum þakkað fyrir sitt framlag til íþróttanna í landinu.

Á ársþinginu var Gunnar Sigurðsson þingforseti og stýrði hann því af röggsemi og jafnframt léttleika. Alls voru 37 þingfulltrúar mættir til þings af 59 mögulegum frá átta aðildarfélögum af tíu.

Skýrsla stjórnar var flutt af framkvæmdastjóra UMSS, Thelmu Knútsdóttur, og kynnti hún einnig reikninga sambandsins. Nokkrar tillögur lágu fyrir þinginu og um þær urðu góðar umræður í þingnefndum. Þær voru allar samþykktar samhljóða, þar á meðal fjárhagsáætlun UMSS eftir lítilsháttar breytingar frá þingnefnd.

Stjórn UMSS skipa nú þau Gunnar Þór Gestsson formaður, Þuríður Elín Þórarinsdóttir gjaldkeri, Þorvaldur Gröndal ritari, Aldís Hilmarsdóttir og Kolbrún Marvia Passaro. Í varastjórn eru þeir Elvar Einarsson, Indriði Ragnar Grétarsson og Jóel Þór Árnason.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir