Hægist á fisksölu erlendis
Í Feyki er sagt frá því að fiskur, og þá sér í lagi dýrari tegundir eins og þorskur, eru þyngri í sölu á erlendum mörkuðum en fyrir nokkrum mánuðum síðan. Að sögn Jóns Eðvalds Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Fisk Seafood, ríkir óvissa á fiskmörkuðum.
-Okkar aðal markaðir hafa verið í Bretlandi og á Spáni og mikið inn á veitingahúsin í þessum löndum. Efnahagskreppan í heiminum gerir það að verkum að menn eru varkárari í viðskiptum, minnka birgðahald og færri viðskiptavinir sækja veitingahúsin og svo framvegis, segir Jón Eðvald.
Aðspurður segir hann að aukning þorskkvótans sé ekki eins mikil lausn í dag og hún var fyrir bara mánuði síðan.
Fram kemur í Feyki að Fisk Seafood býr að því í dag að vera efnahagslega traust og með ágæta lausafjárstöðu og því þokkalega í stakk búið til að takast á við erfiðleikana framundan. Erlend lán hafa að sjálfsögðu hækkað mikið, en tekjurnar eru einnig í erlendum gjaldmiðlum og því megin málið fyrir okkur hvenær menn sjá til botns í efnahagsmálum heimsins, þannig að hægt verði að spyrna sér upp á við á ný.