Hafnfirðingar sáu rautt á Húnavöku

Aliu Djalo gerði þriðja mark heimamanna í gær. MYND: ÓAB
Aliu Djalo gerði þriðja mark heimamanna í gær. MYND: ÓAB

Það var leikið á Blönduósvelli síðdegis í gær en þá tóku heimamenn í Kormáki/Hvöt á móti Hafnfirðingum í liði ÍH. Gestirnir hafa ekki verið að sperra stél í 3. deildinni það sem af er sumars og það var því úrvals tækifæri fyrir lið Húnvetninga að tryggja enn betur stöðu sína í deildinni. Það reyndist ekki erfitt því gestirnir gerðu sjálfum sér lítinn greiða með því að missa tvo leikmenn af velli með rautt spjald strax í fyrri hálfleik. Lokatölur voru 4-0.

Markasérfræðingurinn Hilmar Þór Kárason var aðeins fimm mínútur að finna netmöskvana í gær og koma heimamönnum í forystu. Hann bætti um betur á 25. mínútu en þá var Róbert Andri Árnason þegar farinn að kanna sturturnar á Blönduósi eftir að hafa fengið að líta rautt spjald hjá dómara leiksins. Hafnfirðingarnir virðast hafa verið örlítið vanstilltir því á 31. mínútu fékk Arnar Sigþórsson gult spjald og síðan rautt þremur mínútum síðar. Staðan var því ekki góð hjá gestunum í hálfleik, 2-0 undir og tveimur mönnum færri.

Eftir klukkutíma leik bætti Aliu Djalo við þriðja marki Kormáks/Hvatar og Kristinn Bjarni Andrason kórónaði góðan sigur með fjórða markinu á 70. mínútu.

Með sigrinum stukku Húnvetningar upp í sjöunda sæti 3. deildar, eru með 17 stig að tólk leikjum loknum. Nú er staða liðsins þannig að styttra er upp á topp deildarinnar en niður í fallsæti. Í næstu umferð getur liðið með sigri komið sér í spennandi stöðu en þá á Kormákur/Hvöt heimaleik á Hvammstangavelli þar sem mótherjarnir verða Vængir Júpiters sem hafa verið að ströggla að undanförnu.

Það eru því spennandi vikur framundan – áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir