Hámarkshraði við einbreiðar brýr lækkaður
Vegagerðin hefur ákveðið að lækka hámarkshraða í 50 km/klst. við allar einbreiðar brýr á þjóðvegum þar sem umferð er meiri en 300 bílar á dag að jafnaði alla daga ársins (ÁDU). Um er að ræða um 75 einbreiðar brýr, um helmingur á Hringvegi. Þá verður viðvörunarskiltum breytt og einnig bætt við undirmerki á ensku á viðvörunarskiltum. Kostnaður við merkingar er áætlaður um 70-80 milljónir króna.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að einnig hafi verið ákveðið að yfirfara hámarkshraða á þjóðvegum í dreifbýli og breyta honum til lækkunar reynist þess þörf eða fjölga merkingum um leiðbeinandi hraða. Þá verður gerð úttekt á vegriðum á öllum brúm á stofn- og tengivegum. Lagfæringum verður forgangsraðað eftir ástandi brúnna og aðstæðum á hverjum stað eftir því sem svigrúm er í fjárheimildum. Eftir sem áður gildir sú gullvæga regla að ávallt ber að haga akstri eftir aðstæðum.
Heildarfjöldi brúa á þeim þjóðvegum sem teljast til stofn- og tengivega er 892. Af þessum brúm teljast 423 vera einbreiðar, þ.e. 5 metrar að breidd eða mjórri.1 Mikil áhersla er lögð á að fækka einbreiðum brúm en ljóst er að langan tíma mun taka að útrýma þeim. Á undanförnum þremur árum hefur staðið yfir átak varðandi bættar merkingar við einbreiðar brýr, sem m.a. felst í uppsetningu blikkljósa, og hafa nú allar brýr á Hringvegi verið merktar á sambærilegan hátt og sama gildir um nokkrar brýr utan Hringvegar. Alls er um að ræða 77 brýr þar af eru 37 á Hringvegi.
Byrjað verður á Hringvegi meðfram suðurströndinni að Jökulsárlóni en þar eru jafnframt þær einbreiðu brýr sem hafa hvað mesta umferð.
Sjá nánar á heimasíðu Vegagerðarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.